Körfuboltabúðir í Amposta á Spáni: dagbók fararstjóra

Í júní fór 18 krakka hópur frá körfuknattleiksdeild Þórs í körfuboltabúðir í Amposta á Spáni. Fararstjórar voru Ottó Rafn og Róbert Dan og skrifuðu þeir samviskusamlega dagbók yfir ferðalagið. Fengum við leyfi til að birta hana.

Dagur 1 og svo eiginlega hálfur í viðbót

Punktur 1. Maturinn á flugstöðinni er af verri gerðinni.
Skömmu eftir að við komumst inn í flugstöð, þá fengum við okkur að borða. Hamborgararnir voru upphitaðir og franskarnar ískaldar. Fæstir náðu að klára matinn sinn. Þetta hafði þó lítið að segja þar sem krakkarnir voru uppteknir við að ráfa í verslanir og láta sér leiðast.

Punktur 2. Aldrei fljúga með Vueling þeir eru ekkert sérstaklega stundvísir og þeim er eiginlega drullusama.
Eins og ykkur er kunnugt var nærri 4 klst seinkun á flugi okkar til Barcelona. Við vorum flest mætt um 19:30 út á flugvöll og flugum af stað rétt fyrir tvö um nóttina. Flugvélin var af eldri gerðinni og angaði af olíu. Það er svo sem ekkert sérstakt gæðamerki. Skömmu eftir flugtak þá komu flugfreyjurnar með kerrurnar sínar. Þær pössuðu sig sérstaklega á að mynda ekki augnsamband við neinn og hlupu með draslið framhjá okkur. Það borðaði s.s. enginn í flugvélinni. Flugið gekk þó ágætlega á mælikvarða Vueling, þ.e. við lentum á réttum flugvelli.

Punktur 3. Lærðu spænsku
Spánverjar nenna ekkert að tala ensku, eins og rútubílstjórinn okkar gaf sterklega til kynna. Hann var pirraður út í hvað við vorum með mikinn farangur og hringdi ítrekað í Borche að kvarta. Svo rétti hann mér reglulega símann sem heyrði þá Borche segja:” Yes Otto. Everything OK? Go to the bus, you and the kids. Skemmst frá því að segja að við fórum með krakkana okkar í rútuna og sendum þjálfaragreyin sem ætluðu að fá að fara með okkur, í lest. Þeir komu svo í æfingabúðirnar 12 tímum síðar.

Jenný Lovísa og Daníella voru fljótar að finna sér innstungu.

Punktur 4. Pissaðu áður en þú ferð í rútu.
Við neyddumst til að taka pissustopp þar sem einn strákurinn okkar var alveg að pissa í sig. Það var hann Róbert Dan.

Þarna lauk ferðalaginu og það var komið hádegi. Maturinn var ekki frábær. Hann samanstóð af tómatpasta með túnfisk og svo einhverju öðru sem við vissum ekki hvað var en líktist kjötfars-hamborgara. Krakkarnir átu þetta þó með bestu list. Nema auðvitað þau sem borða ekki túnfisk og áttuðu sig svo í miðri máltíð á því.

Svo skelltu allir sér í laugina og lágu í sólbaði. Farið var í körfu og slakað á þar til komið var að fundi, þar sem farið var yfir helstu atriði búðanna og dagskrá næstu daga. Við slógum í púkk með fararstjórum hinna liðanna og versluðum meira vatn, ávexti og kex handa krökkunum.
Kvöldmaturinn var mjög góður og flestir fengu sér kjúkling tvisvar.

Svo hafa krakkarnir verið á æfingum síðan. Síðustu æfingu lauk kl 22. Þá var stokkið í laugina í smástund og svo farið upp á herbergi.

After Sun og Aloe Vera stund tók þarna við. Tannburstun og svefn um 23.

Nathaníel og Þórir á einni af fyrstu æfingunum

Okkur langar til að hrósa krökkunum sérstaklega fyrir hve vel þó stóðu sig í þessu ferðalagi. Þetta var hundleiðinlegt og erfitt en þau héldu hópinn og voru frábær.

Dagur 2

Við vöknuðum öll stundvíslega tilbúin í átök dagsins, sem hófust kl 6. Eða næstum því öll. Ég ákvað að sofa lengur. Róbert tók því moskítóvaktina en krakkarnir virðast hafa verið morgunmaturinn hjá þeim. Ansi mörg voru bitin og fengu þar af leiðandi after bite meðferð Róberts.

Æfingar hófust svo fljótlega eftir það. Ákveðið var að skipta hópnum og fara í bæjarferð. Númer 1 á innkaupalista strákanna var klósettpappír. Þeir hafa víst verulegar athugasemdir við gæði skeinipappírsins í búðunum. Varð Senior Lambe fyrir valinu. Þau versluðu sér duglega af vatni og öðrum nauðsynjavörum eins og snakki og hlauppokum.

Morgunmatur hjá moskító

Mikil umræða skapaðist á meðal fararstjóra varðandi hvíldartímann á milli 14 og 16. Þá eiga krakkarnir að vera inni í herbergjum að slaka á. Okkur Róberti þótti þetta nú ansi lélegt af stjórnendum búðanna og töldum við að við gætum engan veginn tekið þátt í því að innleiða þetta. Eða eins og Róbert orðaði þetta, með hendurnar út í loftið :“Við tökum bara ekki þátt í svona rugli“. Við gáfum okkur þó á endanum, lofuðum að prófa þetta í einn dag og ákváðum svo, kl 14:30 að fara upp og ræða við krakkana í herbergjum þeirra. Leiðinlegt fyrir málstað okkar Róberts, en þau voru öll upp í koju og flest sofandi.

Það toppaði þó siestuna að fljótlega eftir 15, þá komu rútur í hlað með fleiri hundruð spænsk börn. Hljóðkerfi var dregið út í anddyrinu hjá okkur og hávær ræða haldin. Á þessum tímapunkti lauk hvíldartímanum hjá flestum.

Æfingar héldu svo áfram af miklum krafti og krakkarnir hafa staðið sig gríðarlega vel. Að æfingum loknum hentu þau sér í laugina áður en skriðið var í koju.

Dagur 3
Tómas Valur á æfingu

Við héldum ekki lengur út. Í dag ákváðum við Róbert að hætta gríninu sem við störtuðum þegar við komum hingað. Tristan Rafn og Einar Dan kalla hann ekki lengur mömmu og mig ekki pabba. Sögðum hinum fararstjóranum sem sagt loksins að við séum ekki par. Það er skemmst frá því að segja að við sáum ákveðin vonbrigði í augum hinna foreldranna.

Dagurinn hófst á því að Róbert fékk að sofa út til 7. Ég tók því morgunræsinguna og reif alla á fætur með látum. Allir voru reknir út um 6 og beint á morgunæfingu. Okkur finnst stundum eins og þau hati okkur fyrir klukkan 6 á morgnanna. Strax eftir morgunmat hófust svo æfingar eins og áður. Veðrið var ögn verra í dag en í gær og náði hámarki um aðeins 35 gráður. Skítaveður hérna á Spáni.

Hádegismaturinn var hrein dásemd. Smokkfiskeitthvað í einhverskonar hrísgrjónum og svo eitthvað kjöt sem enn er verið að rífast um hvað var. Það var allt í lagi, þar sem það var á kafi í tómatsósu. Spánverjar vita svo sannarlega hvernig á að gera góðan mat. Krakkarnir voru orðnir þreyttir og þau eru að læra inn á að nota hvíldartímann til þess að slaka á.

Ottó Rafn og Róbert Dan, þegar ástin blómstraði

Fleiri æfingar tóku við og svo kvöldmatur sem samanstóð af einhvers konar eggjahræru, pylsum og svo fiskrétt. Flestir átu vel af þessu. Svo voru spilaðir leikir og farið í sund. Að því loknu tók hver og einn saman öll sín óhreinu föt og á morgun verður farið í þvottaleiðangur. Veisla.

Dagur 4

Bissí dagur í lífi fararstjóra. Róbert tók morgunvaktina og fór með krakkana um kl 6 af stað. Þessi athöfn verður vinsælli með hverjum morgninum. Við reiknum með því að á föstudag, munum við ekki þurfa að ræsa þau, heldur vakni þau sjálf með bros á vör og hlaupi út.

Matti kom á bílaleigubíl og fór með okkur í risa-verslunarferð. Hann lenti svo í leiðinda atviki, þar sem rúmensk portkona áreitti hann kynferðislega og heimtaði af honum pening. Hann hljóp í burtu frá henni og í öruggar hendur okkar. Við stöppuðum í hann stálinu og eftir nokkrar mínútur þerraði hann tárin og við gátum haldið áfram. Við keyptum 140 powerade, tvo bananakassa, 100 epli og 140 lítra af vatni. Svo færðum við krökkunum skinkuhorn til að fá sér um kaffileytið. Það vakti mikla lukku.

Daníella og Jenný Lovísa á einni af verri æfingunum. Hitinn þarna var yfir 37 gráðum.

Æfingarnar voru með hefðbundnu sniði og hádegismaturinn var aldrei þessu vant bærilegur. Krakkarnir fengu pasta án smokkfisks og kræklings, og svo auðvitað hakkbuff sem kokkarnir virðast hafa keypt í einhverjum hrikalegum magninnkaupum.

Skyndilega var opnuð sjoppa hér á staðnum. Ronja Ræningjadóttir rekur hana en hún er alræmd níræð kerling sem skilur ekki neitt og tungumálaörðugleikarnir hafa átt það til að breyta verðum á vörum úr evru í eitthvað eins og 8 evrur. Hún virðist þó hin hressasta með það og það er alveg sama þó að enginn skilji hana. Hún lætur alltaf eins og krakkarnir viti um hvað hún er að tala.
Krakkarnir tóku saman óhreina þvottinn sinn og settu hvert í einn poka. Pokarnir voru svo merktir og sendir í þvottahús. Það er veðmál í gangi hjá fararstjórunum um hvernig við fáum fötin til baka í dag. Róbert heldur því fram að þetta komi samanbrotið og merkt hverju barni, en ég segi að við fáum þetta allt saman í einum svörtum ruslapoka. Hvorugur okkar virðist þó hafa rétt fyrir sér, þar sem þvotturinn kom bara alls ekki í dag. Það var ákveðinn skellur, en við bíðum spenntir ….

Seinni partinn var veðrið svo nánast óbærilegt. Hitinn varð agalegur og útiæfingar á fullu. Krakkarnir eru mjög duglegir við að bera á sig og þamba vatn stöðugt á æfingum.

Kvöldmaturinn var sem betur fer fínn. Kjúklingur og svo auðvitað túnfiskpasta. Kjúklingurinn er góður hérna og vonum við bara að við fáum meira af honum.

Keli að smella 2 stigum

Svo tók við spil-æfing og við skriðum í rúmið um miðnætti. Það er nýbreytni hjá okkur þar sem við höfum setið við rafmagnstöfluna í húsinu og slegið inn öryggi á 5 mínútna fresti fram eftir nóttu. Í dag komu einhverjir meistarar og löguðu þetta drasl. Loftkælingin er því á fullum krafti í herbergjum krakkanna.

Á morgun verður sofið út. Við munum ræsa um kl 8:15 og svo munum við fara með krakkana í miðbæinn og borða eitthvað gott í hádeginu. Æfingar munu svo halda áfram seinni partinn. Þetta er kærkomin hvíld þar sem eitthvað er um blöðrur og aðra áverka. Við erum þó búin að vera mjög heppin með þetta allt saman. Aðrir fararstjórar hafa þurft að fara nokkrar ferðir á spítalann með sín börn.

Eins og Borche orðaði það við okkur í dag:“What I like most about your kids is that they never quit. They are tough and never give up“ Þetta er best að lesa með vondum rússneskum hreim svo maður fái rétta tilfinningu fyrir innihaldi setningarinnar.

Dagur 5

Dagurinn hófst ekki alveg eins vel og við ætluðum. Fararstjórarnir stilltu klukkuna vitlaust og því mættum við aðeins of seint í morgunmat. Kennum við hvor öðrum um klúðrið en þetta var Róberti að kenna.

Loftkælingin í herbergjunum stóð sig með prýði í nótt. Svo vel að nokkur þeirra sváfu kappklædd. Við redduðum því svo, þannig að herbergin verði nú ekki of köld.

Öryggisvaktin

Strax eftir morgunverð röltum við niður í bæ. Við höfðum farið í vettvangsferð fyrir einhverju síðan og þá var ekkert um að vera. Í dag var hins vegar stór útimarkaður á einhverjum götum og allt fullt af fólki. Þarna var hægt að kaupa alls konar drasl sem engan langar í. Blævængir, hálsmen, bolir og allskonar dót. Við Róbert skiljum ekki alveg af hverju enginn keypti hálsmen með kannabis merkinu, eða Che Gueverra bol handa mömmu sinni.

Við fórum því beint á verslunargötuna og röltum í búðir. Enginn keypti þó mikið, enda allir að bíða eftir verslunarferð okkar í Barcelona á laugardag. Við borðuðum svo saman á pizzastað. Krakkarnir sögðu að veitingastaðurinn hefði verið nokkuð góður, miðað við það að hann væri á Spáni.

Það gladdi okkur fararstjórana að sjá rúmensku portkonuna. Hún var greinilega mætt á dagvaktina og líklega að leita að Matta. Við skilum því kveðju til hans frá henni.
Krakkarnir hittu svo prýðisdrengi sem sennilega eru ættaðir af svæðinu. Þeir höfðu mikinn áhuga á símunum sem krakkarnir voru með og vildu ólmir fá að prófa tækin. Einhverra hluta vegna vildu þau ekki leyfa þeim að skoða símana sína. Þeir smelltu þá bara nýrri sígó í kjaftinn og röltu sína leið. Indælis drengir.
Við röltum svo heim á leið og vorum komin um 15:30. Smá hvíld og svo beint á æfingu.

Tobbi, Sævar, Þröstur og Matthías Rafn að kæla sig.

Svo var komið að því að útkljá veðmál gærdagsins. Róbert hafði veðjað á að þvotturinn kæmi í dag, samanbrotinn og merktur réttum nöfnum. Ég hafði hins vegar sagt að hann kæmi í svörtum ruslapoka. Við skulum orða þetta þannig að potturinn hefur stækkað töluvert þar sem þvotturinn kom bara alls ekki. Við bíðum því spenntir eftir að sjá klæðnað barnanna á morgun…..
Í kvöldmatinn fengum við svo kjötbollur og eitthvað sem við vitum ekki alveg hvað var. Það líktist rækjusalati með smá blandi af aspas súpu. Kjötbollurnar eru þó vinsælar hjá krökkunum og því telst þetta með betri máltíðum búðanna.

Í kvöld var svo vítakeppni. Sæmi, Matthías Rafn og Þórir komust í úrslit sem verða á fimmtudagskvöldið. Kvöldinu var svo slúttað með stuttu diskóteki þar sem frábærir slagarar með Úlfi Úlf og Aron Can“-n ekki að syngja“ ómuðu um allar búðirnar. Frábærir listamenn… Fararstjórum hinna búðanna sem eru hér, fannst þetta ekki skemmtileg tónlist og létu slökkva á partýinu um 23:30. Þeir skilja sennilega bara ekki þessa háfleygu texta sem þessir kappar raula.

Dagur 6

Einhver sagði einhvern tíma, „morgunstund gefur gull í mund“. Ég ræsti þau kl 6. Þau voru gríðarlega hress og ánægð með mig. Mér heyrðist ég meira að segja heyra einhvern hvísla:“Vei, Ottó er kominn, það er frábært“. Það var annaðhvort það eða „Ottó er fokking pirrandi“. Ég ákvað að heyra það fyrra. Þau vippuðu sér umsvifalaust á lappir, brostu út að eyrum og gerðu sig klár á æfingu.

Strax eftir morgunmat var farið á morgunæfingarnar. Á meðan á því stóð gerðust undur og stórmerki. Þvotturinn kom í hús. Hann var samanbrotinn, straujaður og í pokum merktum nöfnum eins og Drostr, Pristn og Svar. Við erum greindir menn og gátum ráðið úr þessum gátum þeirra.

Í sumum löndum er tilgangur þvottar að þrífa föt. Á Spáni virðast þeir bara skola draslið og kalla þetta gott. Róbert vann samt veðmálið að hans mati. Ég hef áfrýjað þeirri niðurstöðu og þetta verður lagt í dóm Borche í fyrramálið.

Það verður að viðurkennast að maturinn hefur farið batnandi. Í dag fengu krakkarnir pasta í einhverju tómatmauki og einhvers konar kjúklinganagga. Þeir hljóta að vera búnir með smokkfiskinn.

Matthías Rafn að setja hann

Við Róbert erum lið og þegar það er ráðist á annan okkar þá stöndum við saman. Á sundlaugarbakkanum í dag, réðist óprúttinn drengur að Róberti og smellti blautu handklæði í andlitið á honum. Höggið var fast og Róbert átti erfitt í baráttunni við tárin. Þessi óprúttni drengur var svo í boltaleik með okkur síðar um daginn og ég hefndi fyrir okkur. Grýtti bolta í andlitið á honum. Einar Dan mun hugsa sig tvisvar um áður en hann lemur Róbert Dan aftur.

Á seinni parts æfingunum var svo farið í 1 á 1 keppni. Okkar fólk stóð sig með prýði og eru nokkur þeirra komin í úrslit. Sæmundur og Tristan eru komnir í úrslit í sínum flokki og Daníela í sínum. Jenný varð hins vegar fyrir ökklameiðslum í sínum leik og fær að jafna sig og ljúka honum á morgun.

Þröstur Ægir á hvolfi

Ég reikna með að einhver hljóti að hafa kvartað kröftuglega í kokkunum hérna og líklega beðið um einfaldari mat Í kvöldmat fengum við pylsur með snakki, já og fisk. Í eftirmat fengu krakkarnir svo einhvers konar jógúrt/búðing. Við Róbert erum hins vegar hættir að biðja um kaffi hjá þjónunum. Í hvert skipti sem við biðjum þá um kaffi, þá hrista þeir hausinn, segja eitthvað fallegt á spænsku og afgreiða okkur svo vitlaust.

Kvöldæfingin var 3ja stiga keppni. Þar komust Þórir, Kristófer, Sævar og Matthías í úrslit. Úrslitin í vítaskotum, 1 á 1 og 3ja stiga keppninni eru á morgun.

Einar Dan á æfingu

Aftur fengum við að njóta frábærrar tónlistar hér í Amposta. Annað partý og aftur sama gæða tónlistin. Reikna með að ræningjakerlingin í sjoppunni sé orðin harður aðdáandi Aron Can og annarra íslenskra rappara.

Nokkuð er um blöðrur, hælsæri og slík meiðsli hjá krökkunum og svo auðvitað ökklameiðsli. Öll eru þau þó klár í slaginn á morgun.

 

 

Dagur 7
Jakob Unnar að kæla sig

Við fórum saman á fætur í morgun og ræstum krakkana. Sama sólskinsbrosið og alltaf og þau voru fljótlega tilbúin í átökin. Okkur finnst eins og við höfum virkilega náð að venja börnin á að vakna hress og kát, eldsnemma á morgnanna.

Það má því reikna með að það verði lítið mál fyrir þau að vakna brosandi klukkan 6 þegar þau koma heim.
Morgunæfingarnar tóku svo við og á meðan ákváðum við Róbert að komast að því af hverju herbergið okkar lyktar alltaf eins og dauð mús. Fyrir ykkur sem vitið ekki hvernig dauð mús lyktar þá get ég sagt ykkur að það er vond lykt af svoleiðis. Róbert ákvað að lyktin kæmi úr niðurfalli sturtunnar. Við leystum ofan af því og viti menn…. DAUÐ MÚS. Herbergið okkar lyktar því núna bara af táfýlu.

Sæmundur og Tristan Rafn að tana

Hádegismaturinn var hræðilegur. Nenni ekki að eyða orðum í hann. Finnst eins og við séum búnir að koma því að hve slakur hann er. Svo virðist sem kokkarnir hafi fengið nýja sendingu af smokkfisk. Sem sagt smokkfiskur, kræklingur og eitthvað fleira jukk í hrísgrjónum. Hann var s.s. þannig.

Ísak Júlíus á æfingu

Svo tók við úrslitakeppnin. Krakkarnir okkar sem voru í úrslitum stóðu sig vel og fengum við 3 gull, 2 silfur og 4 brons. Svo var Ísak Júlíus valinn maður All-Star leiksins. Þá var æfingabúðunum slúttað.

Matti kom um kvöldið til okkar. Aftur var hann með tárin í augunum en nú vegna þess að einhver óforskammaður Spánverji braust inn í bílaleigubílinn hans. Við hugguðum hann og knúsuðum. Í ljós kom svo að bílaleigan sem þeir leigðu bílinn hjá, er rekin af gamalli húsmóður sem einungis er með bílaleigu í um 3 klst fjarlægð. Nú um miðnætti þá var vinur hans ekki enn kominn til baka.

Að lokum tók partý við og það stóð yfir til miðnættis. Ég er hræddur um að ef Róbert heyrir aftur í Aron Can, þá tapi hann sér. Á morgun erum við ein hérna og ætlum við að skella okkur á ströndina.

Dagur 8

Við sváfum út í morgun og hentum okkur á fætur kl 8:30. Þá gerðum við okkur klár í að fara á ströndina og fórum í morgunmat. Þegar við vorum svo að klára morgunmatinn kom vægast sagt úrillur Spánverji og ræddi við okkur á handónýtri ensku. Eftir allskonar pælingar komumst við loks að því að við áttum að skipta um herbergi fyrir kl 10. Við höfðum ekkert heyrt um þetta og mölduðum í móinn, enda engan veginn til í að pakka og færa okkur, rétt um það leyti þegar við vorum að fara út. Skemmtilega Spánverjanum var hins vegar drullusama og eftir að við lýstum yfir mikilli óánægju með þetta, þá neyddumst við til að gefa okkur. Við erum s.s. komin í önnur herbergi og nú 8 manna. Stelpurnar eru þá núna í 8 manna herbergi í stað 6.

Viktor Ingi einbeittur

Það var ótrúlegt, en við jöfnuðum okkur á þessu og hringdum í leigubíl. „No senior“ sagði kappinn á hinum enda línunnar þegar ég bað um bíla fyrir 18 manns. Við röltum því áleiðis á strætóstöðina. Það reyndist lítið mál að fá miða í strætóinn, eftir að ungur drengur kom og aðstoðaði okkur. Pirraða unga daman sem afgreiddi okkur ætlaði að vísa okkur frá þar sem hún vissi ekkert hvað við vorum að tala um. Þannig á meðan hún talaði við vinkonu sína í símanum, þá kom þessi eðal drengur og reddaði svo málunum.

Næsta stopp, ströndin. Veðrið var mjög gott og krakkarnir ýmist lágu í sólbaði, voru á hjólabátum eða í sjónum. Fyrir áhyggjufullar mæðurnar sem lesa þetta, þá voru þau mjög dugleg að bera á sig. Það er þó nokkuð um smá roða hjá nokkrum drengjanna.

Rétt um það leyti þegar við vorum að fara að borða, þá lenti Sævar Elí á spjalli við gamla spænska konu. Samtalið var kostulegt og hljómaði einhvern veginn svona
Konan:“ Qué demonios haces aquí?
Sævar:”Serge Ibaka si si”
Konan:” Usted entiende nada de lo que digo, chicos cagan”
Sævar:”Si si, Ricky Rubio, Pau Gasol”
Konan:” Mucho puede ser aburrido, muchacho”
Sævar:”Marc Gasol, si si Sergio Rodriguez”
Svo rölti okkar maður í burtu og sú gamla stóð eftir sótvond, og hristi hausinn.

Sæmundur á æfingu

Við fórum svo að borða á ítölskum veitingastað með ensku mælandi þjónum. Þeir voru afar áhugasamir um tíðar komur Íslendinga á staðinn síðustu vikuna. Einn þeirra sagði okkur svo að hann ætlaði sér að fara til Íslands og taka mastersgráðu í einhverju sem ég man ekki hvað var.

Þá röltum við á ströndina. Á leiðinni þangað datt Kristóferi í hug að sparka inniskónum sínum á undan sér. Það heppnaðist svo vel að hann sparkaði öðrum skónum sínum yfir 3 metra háan vegg. Eftir ítrekaðar tilraunir okkar til að komast yfir vegginn, rákum við augun í nokkur skilti PRIVATO, SECURITY og svo var eitt skilti með einhverri langloku sem vafalítið hljóðar „trespassers will be shot“ á ensku. Drifum okkur þá í burtu áður en lögreglan kæmi.

Aftur á ströndina og í sjóinn. Þegar þarna var komið var farið að draga töluvert úr eldmóði krakkanna. Við fórum því að stoppistöðinni. Þar biðum við eftir strætó sem átti að koma 17:45. Klukkan 17:50 sagði Róbert að það væri alls ekki óalgengt að strætóarnir væri ca 5 mínútna seinir á Spáni. Klukkan 18, sagði hann að hann væri rétt ókominn. Kl 18:15, sagði hann að þetta væru hálfvitar. Strætóinn kom svo að lokum um 18:30. Þá fórum við til baka til Amposta. Eftir að hafa séð hinn bæinn, erum við sannfærð um að Amposta hljóti að vera svona Stokkseyri Spánar.
Þá röltu einhverjir heim á leið og við Róbert fórum með restina niður í bæ. Þar röltum við um verslunargötuna og fengum okkur svo sæti á einhverju kaffihúsi, þar sem Sæmi ákvað að skella sér í klippingu. 10 mínútum síðar, komu strákarnir til okkar Róberts og þá var verið að klippa Sæma, nema að hann áttaði sig á því að hann hafði ekki nægan pening fyrir klippingunni, þar sem þeir tóku engin kort. En það var allt í lagi hafði hann sagt þeim, spænsku klippararnir myndu örugglega lána honum fyrir klippingunni. Við redduðum honum umsvifalaust pening, áður en hringt yrði á lögregluna.

Fórum svo í æfingabúðirnar. Þar gista núna auk okkar, fleiri hundruð spænsk börn. Þeim finnst voðalega skemmtilegt að hlusta á smelli eins og Macarena á fullu blasti. Það væri svo sem allt í lagi, ef herbergin okkar væru ekki alveg ofan í partýsalnum.

Fljótlega eftir komu okkar, vorum við sóttir. Þá höfðu tveir af okkar drengjum þurft að kúka og þeir gerðu það svona vel að klósettið var stíflað. Eftir að hafa googlað orðið drullusokkur og sýnt húsverðinum mynd, fengum við einhvern skrýtnasta drullusokk sem við höfum séð. Skaftið var pínulítið. Aftur reyndi á greind okkar og við sigruðumst að lokum á vandamálinu.

Allir fóru svo í háttinn og góður dagur er að baki. Á morgun er það Barcelona.

Að lokum langar okkur að minnast á hve frábærir krakkarnir hafa verið í ferðinni. Þau vandamál sem hafa komið upp, hafa verið smávægileg og hegðun þeirra hefur verið til fyrirmyndar.

Lokadagur

Jæja nú getið þið gert kampavínið klárt. Við erum að koma heim. Þegar þetta er skrifað erum við í 30000 feta hæð og einhvers staðar yfir Atlantshafinu. Við erum virkilega vongóðir um að við lendum á réttum flugvelli.

Við ákváðum að sofa út í dag og fórum á fætur klukkan 8. Spánverjarnir voru búnir að útbúa nesti fyrir okkur. Vatn, banana og langloku með salami. Það er nokkuð ljóst að þeir munu sakna okkar, en það kom glögglega í ljós þegar við kvöddum þau. Með tár í augum sögðu þau eitthvað. Við sögðum gracias og adios og ef spænska mín er ekki að svíkja mig, sögðu þau:“Elsku Þórsarar, fríðari og betri hóp höfum við ekki fengið hingað til Amposta.“

Rútan mætti klukkan 9 og sem betur fer fengum við bílstjóra sem talar óaðfinnanlega…..spænsku. Við Róbert teiknuðum því myndir fyrir hann og komum honum í skilning um hvert ferðinni var heitið. Áfangastaðurinn var La Marquista, sem er stærsta verslunarmiðstöð Katalóníu. Bílstjórinn hafði aldrei heyrt um hana….. Google maps í símann og af stað.

11:15 mættum við svo á staðinn. Við höfðum rútuna í 8 tíma eða til klukkan 17. Sendum bílstjórann í burtu og lögðum línurnar fyrir krakkana. Næsta stopp hjá flestum var svo Macdonalds.
Verslunarmiðstöðina var risastór en fljótlega kom upp vandamál. Íslensku kortin fengu ítrekað synjun. Það verður að segja að það truflaði okkur mikið og krakkarnir gátu ekki gert allt sem þau ætluðu sér.

Rútan beið svo eftir okkur og við vorum mætt á flugvöllinn klukkan 18. Checkin og Macdonalds. Sáum ekki betur en einhverjir væru að fylla töskurnar sínar með hamborgurum. En það er allt í lagi, þeir skemmast víst ekki.

Þegar við vorum að fara um borð, kom í ljós eitthvað klúður í bókunarkerfi Vueling. Tveir úr okkar hóp voru með sama flugmiðann. Eftir 15 mínútna þrætur okkar við starfsmenn Vueling, hleyptu þeir okkur loksins inn. Við Róbert vorum við um það bil farnir að kasta upp á hvor okkar yrði eftir. Langsíðust hlupum við um borð.

Nú er ferðalagi okkar lokið og þið takið aftur við börnunum ykkar. Mælum við eindregið með að þið bætið smokkfisk í heimilismatinn næstu daga. Bara til að draga úr söknuð barnanna á matseld spænsku meistarakokkanna í Amposta Park.

Það sem við getum tekið með okkur úr þessari ferð er að krakkarnir ykkar eru öll stórskemmtileg og þau voru bara hreint út sagt frábær.

Þökkum við Róbert kærlega fyrir að hafa fengið að eyða þessum tíma með þeim.
Áfram Þór
Róbert Dan og Ottó Rafn