Ægir mætir KFG á heimavelli: Þrír nýjir leikmenn

Í dag fá Ægismenn lið KFG í heimsókn á Þorlákshafnarvöll í 3. deildinni í knattspyrnu en um er að ræð mjög mikilvægan leik fyrir Ægismenn þegar seinni umferð Íslandsmótsins er hafin.

Nokkrar breytingar hafa orðið á liði Ægis þar sem einhverjir leikmenn hafa yfirgefið félagið en í staðinn hefur liðið fengið til sín þrjá nýja leikmenn sem allir verða gjaldgengir í leiknum í dag.

Ásgrímur Þór Bjarnason er uppalinn í Þorlákshöfn og kemur á láni frá Fjölni en fyrr í sumar lék hann með 1. deildar liði Selfoss. Darko Matejic og Paul Bogdan Nicolescu hafa báðir leikið með Ægi áður. Matejic er framherji sem kom til Ægismanna árið 2013 og skoraði þá 11 mörk í 2. deildinni en árið eftir skoraði hann 4 mörk fyrir liðið. Nicolescu lék með Ægismönnum seinni hluta seinasta tímabils í 2. deildinni.

Nú þegar seinni hluti mótsins er hafinn er nauðsynlegt að styðja við bakið á Ægismönnum og fjölmenna á völlinn. Leikurinn hefst klukkan 14.