Bæjarráð Ölfuss samþykkti nýverið að festa kaup á tveimur fasteignum í Þorlákshöfn sem á að nýta sem félagslegt leiguhúsnæði.
Á síðasta fundi bæjarráðs Ölfus var rætt um stöðu félagslega íbúðakerfisins í Ölfusi og þær tillögur sem fram hafa komið í þeim málaflokki til úrbóta. Á fundinum var einnig ákveðið að festa kaup á tveimur fasteignum sem á að nýta sem félagslegt leiguhúsnæði.
Samþykkt var að leggja fram kauptilboð í fasteignina Eyjahraun 6 upp á 29,5 milljónir króna. Þá var einnig tekið fyrir erindi Íbúðalánasjóðs um að bjóða Sveitarfélaginu Ölfusi að kaupa fasteignir í eigu sjóðsins í sveitarfélaginu. „Tillagan sem lögð er fram er sú að fjárfest verði í einni íbúð í eigu Íbúðalánasjóðs undir félagslegar leiguíbúðir enda er hún í ásættanlegu ástandi, í stærð sem hentar og er ekki í notkun,“ segir í fundargerð bæjarráðs. Bæjarráð samþykkti að fela bæjarstjóra að ganga til samninga við Íbúðalánasjóð um kaup á Norðurbyggð 18b.
Þá skorar bæjarráð á Íbúðalánasjóð að draga til baka uppsagnir á þeim íbúðum í eigu sjóðsins sem eru í útleigu í sveitarfélaginu. „Almennt ástand á húsnæðismarkaði er með þeim hætti að fjöldi þess fólks sem í þessum leiguíbúðum býr hefur ekki í nein hús að venda,“ segir enn fremur.
Bæjarráð vill að lengri frestur verði gefinn, að minnsta kosti þrjú ár. „Reikna má með að ástand á húsnæðismarkaði, sérstaklega hvað leigumarkað varðar hafi náð jafnvægi að þeim tíma liðnum.“