Lokahóf yngri flokka hjá Knattspyrnufélaginu Ægi var haldið um síðastliðna helgi. Farið var yfir starfsemi allra flokka og veittar viðurkenningar.
3. fl. karla sem spilar í sameiginlegu liði Ægis/Hamars/Selfoss vann sinn riðil í B-deild Íslandsmótsins sem þýðir að liðið mun leika í A-riðli á næsta ári með bestu félögum landsins. Flottur árangur hjá strákunum.
4. fl. karla sigraði A-riðil Íslandsmótsins og urðu því Íslandsmeistarar en þeir unnu einnig Rey-Cup mótið, mjög sterkt alþjóðlegt mót sem haldið er í Reykjavík ár hvert.
Undanfarin ár hafa verið veittar viðurkenningar til elstu iðkenda yngri flokka Ægis fyrir bestu ástundun, mestu framfarir og leikmann ársins. Í ár var ákveðið að veita tveimur iðkendum viðurkenningu fyrir bestu ástundun, systkinunum Hauki Castaldo Jóhannessyni og Söndru Dís Jóhannesdóttir. Þau æfðu bæði mjög vel allt tímabilið, þóttu taka leiðbeiningum þjálfara vel og lögðu sig ávallt 100% fram á æfingum.
Viktor Karl Halldórsson hlaut viðurkenningu fyrir mestu framfarir á tímabilinu og þótti sérstaklega hafa bætt sig í leikskilningi og boltatækni. Flottur fótboltastrákur þar á ferðinni!
Leikmaður ársins að þessu sinni var valinn Daníel Frans Valdimarsson. Danni, eins og hann er jafnan kallaður, stóð sig frábærlega á tímabilinu, sérstaklega í leikjum Íslandsmótsins. Danni vann sér fast sæti í A-liði flokksins og var mikilvægur hlekkur í sterku sameiginlegu liði Ægis/Hamars og Selfoss. Danni er þekktur fyrir baráttugleði og gefst aldrei upp.
Krakkarnir í 5. fl. stóðu sig einnig mjög vel á tímabilinu og munaði hársbreidd að stelpurnar kæmust í úrslitakeppni Íslandsmótsins. Miklar framfarir hjá þessum krökkum.
Í 6., 7. og 8. flokki var meginmarkmiðið að bæta grunntækni og liðsheild hjá krökkunum og tókst það mjög vel. Það er mjög gaman að segja frá því að þessum krökkum fór sérstaklega mikið fram sem liðsfélögum á tímabilinu. 6. og 7. flokkur fóru á mörg mót en því miður komst 8. flokkur ekki á mót í sumar.
Knattspyrnufélagið Ægir leggur mikið upp úr uppeldislegu gildi þess að æfa fótbolta og er lögð rík áhersla á að iðkendur vinni saman sem ein heild utan sem innan vallar og sýni félögum sínum umburðarlyndi og samstöðu. Til að styðja við þetta markmið eru veittar viðurkenningar til þeirra iðkenda sem þykja hafa verið frábærir liðsfélagar á tímabilinu.
Þessir krakkar fengu viðurkenningu fyrir að vera frábær liðsfélagi:
3.-4. fl. Oskar Rybinski
5. fl. Ásdís Karen Jónsdóttir
6. fl. Þorbergur Gunnar Ingólfsson
7. fl. Unnur Rós Ármannsdóttir
8. fl. Alexander Jón Sigurðsson
Núna tekur við stutt frí en síðan byrja æfingar aftur 18. sept. nk. samkvæmt æfingatöflu sem hefur verið auglýst. Æfingagjöld eru: 15 þús. kr. fyrir 5., 6. og 7. fl., og 18. þús. kr. fyrir 4. og 3. fl. Frítt er fyrir yngstu iðkendurna, þ.e. 8. fl. og eins og fyrri ár þá er hægt að láta sækja börnin sem eru í leikskólanum á æfingar og skila. Láta þarf Hólmfríði (s: 7703873) eða Sveinbjörn (s: 8990452) vita af óskað er eftir slíku. Allar nánari upplýsingar um æfingagjöld og greiðslur veitir Kaisa gjaldkeri.
Til upplýsinga þá er aldursskipting flokka í fótbolta með þessum hætti tímabilið 2017-2018:
8. fl. – árgangar 2012 og 2013
7. fl. – árg. 2010 og 2011
6. fl. – árg. 2008 og 2009
5. fl. – árg. 2006 og 2007
4. fl. – árg. 2004 og 2005
3. fl. – árg. 2002 og 2003
Búið er að ráða nýtt þjálfarateymi fyrir yngri flokkana, Sveinbjörn Ásgrímsson sem verður yfirþjálfari, Lárus Guðmundsson og Hólmfríði Smáradóttur. Fráfarandi þjálfurum, Elfari, Rúnari, Axel og Pálma, þökkum við kærlega fyrir gott samstarf og óskum þeim velfarnaðar í þeirra verkefnum.
Ægir hvetur alla krakka sem áhuga hafa að mæta á fótboltaæfingu og skrá sig hjá þjálfara. Rétt er þó að minna á að sveitarfélagið hefur tekið upp skráningarkerfið Nóra sem á að auðvelda allt utanumhald og yfirsýn yfir íþrótta- og tómstundaiðkun barna og ungmenna í sveitarfélaginu. Foreldrar fá nánari kynningu á Nóra á næstunni.
Kveðja,
Barna- og unglingaráð Ægis og þjálfarar