Fegrunarátak í Þorlákshöfn

Fyrir allnokkru síðan átti ég samtal við fyrrum samstarfskonu mína og vinkonu þar sem við ræddum um mikilvægi þess að græða upp bæinn okkar. Hún benti mér réttilega á hversu mikil og jákvæð áhrif slíkt verkefni hefði á bæði búsetugæði og ímynd bæjarfélagsins. Í lok samtalsins lofaði ég henni að setja þetta í formlegan farveg og er sannarlega gleðilegt að segja frá því að nú er verkefnið komið á fullt. Fyrsta áfanga, sem fólst í gróðursetningu við innkomu bæjarins, er lokið og í kjölfarið sendi ég inn erindi sem felur í sér áfangaskipta áætlun um gróðursetningar innan bæjarmarka. Erindið hefur nú verið samþykkt með fyrirvara um kostnaðarmat.

Erindinu fylgdi tillaga að lista yfir verkefni. Eðlilega getur forgangsröðun og áherslur breyst þegar málið er unnið áfram en tillöguna má sjá hér að neðan ásamt skýringarmynd:

  • Planta trjám vestan megin við iðnaðarsvæði til að draga úr sjónmengun frá hafnar/iðnaðar/athafnasvæði.
  • Planta trjám við Vesturbakka til að draga úr sjónmengun frá hafnar/iðnaðar/athafnasvæði.
  • Græða upp og skipuleggja svæðið meðfram heilsustíg.
  • Græða upp og skipuleggja reitinn milli Berga og Búðahverfis.
  • Planta trjám í kringum íþróttasvæði. Myndar skjól og gerir svæðið hlýlegra.

Eitt af því allra skemmtilegasta við störf mín sem bæjarfulltrúi eru þau mýmörgu og innihaldsríku samtöl við íbúa sveitarfélagsins. Þaðan koma hugmyndirnar. Þær verða ekki til á formlegum fundum Bæjarstjórnar. Við erum öll í sama liðinu og berjumst saman fyrir bættu samfélagi. Þess vegna hefur D-listinn ákveðið að koma á fót vefsvæðinu „Betra Ölfus“ þar sem íbúar geta komið á framfæri tillögum um samfélagsbætandi verkefni . Verkefnið fær föst árleg fjárframlög sem veitt verður í þau verkefni sem hljóta flest atkvæði íbúa.

Þannig tryggjum við að við gerum gott samfélag enn betra.

Grétar Ingi Erlendsson
3. sæti D-listans