Þórsarar töpuðu fyrsta leik tímabilsins eftir hörku spennandi leik við Grindavík í kvöld þar sem úrslitin réðust í framlengingu. Einungis 1 stig skildi liðin af í kvöld en lokatölur urðu 106-105 Grindavík í vil.
Leikurinn var í raun járn í járn út allan leikinn en mesti munur milli liðanna fór einu sinni í 10 stig.
Jesse Pellot Rosa var magnaður hjá Þórsurum í kvöld en hann skoraði 32 stig og átti líklega mikilvægustu körfu leiksins þegar hann setti niður þrist sem kom Þórsurum í framlengingu. Þá tók kappinn 9 fráköst og skoraði þar að auki úr öllum 11 vítaskotum sínum.
Þórsarar áttu annan og ekki minna magnaðan leikmann í kvöld. Emil Karel Einarsson átti frábæran leik og skoraði 28 stig, tók 7 fráköst, gaf 6 stoðsendingar, með 4 stolna bolta og var með 100% vítanýtingu, 7 af 7.
Þá átti Ólafur Helgi Jónsson góðan leik en hann skoraði 19 stig, Magnús Breki Þórðarson með 9 stig en hann setti niður þrjá mjög mikilvæga þrista í leiknum. Davíð Arnar Ágústsson og Adam Eiður Ásgeirsson skoruðu sitthvor 6 stigin og Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði 5 stig.
Útlitið er bjart fyrir Þórsara þrátt fyrir tap í fyrsta leik og liðið á inni Halldór Garðar Hermannsson, sem er að jafna sig af veikindum, og fleiri leikmenn sem eiga eftir að komast í gírinn fyrir veturinn.
Næsti leikur Þórs er á fimmtudaginn þegar Njarðvík kemur í heimsókn til Þorlákshafnar.