Íbúar í Þorlákshöfn eru orðnir þreyttir á myndtruflunum í sjónvarpi Vodafone ef marka má umræðurnar í Facebook-hópnum Íbúar í Þorlákshöfn en svo virðist sem vandamálið hafi staðið yfir í um tvö ár.
„Vodafone hefur unnið að því að greina truflanir á flutningsleiðum og í netbúnaði varðandi þetta svæði með Gagnaveitu Reykjavíkur um nokkurt skeið,“ segir Guðfinnur Sigurvinsson, samskiptastjóri Vodafone, í samtali við Hafnarfréttir.
Hann segir að vinnan hafi hafist í lok desember og hafi verið framhaldið reglulega síðan. „Við erum að koma fyrir eftirlitsnemum sem skynja þessar truflanir á öllum símstöðvum og spennistöðvum í grennd, þar sem við erum með virkan netbúnað, þannig að við eigum auðveldara með að einangra þessar truflanir þegar þær koma.“
„Það stendur svo til að mæla allar flutningsleiðir á svæðinu núna aðfaranótt miðvikudagsins 18. apríl og ef eitthvað finnst þá gerum við að sjálfsögðu úrbætur,“ segir Guðfinnur.
Guðfinnur segir að nýr ljósleiðarastrengur sé í lagningu frá Hveragerði til Þorlákshafnar sem ætti að geta dreift bandvídd mun betur en reiknað er með að sú framkvæmd klárist eftir um það bil fjórar til fimm vikur. „Það hefur því miður verið vandamál að stýra bandvídd inn á þetta svæði en við teljum að það muni lagast með nýjum streng,“ segir Guðfinnur að lokum.