Þorláksskógar, samstarfsverkefni sveitarfélagsins Ölfuss, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar er mjög áhugavert og spennandi verkefni sem byggir á sömu hugmyndafræði og Hekluskógar. Hekluskógar er stærsta skógræktar og uppgræðsluverkefni landsins sem starfar frá Rangárvöllum og uppfyrir Hrauneyjar á um einu prósenti Íslands. Þorláksskógaverkefnið var kynnt á opnum íbúafundi þann 16, apríl síðastliðinn í Ráðhúsi Ölfuss.
Hugmyndin með Þorláksskógum er að rækta skóg á 4.800 hekturum lands á sandinum norðan við Þorlákshöfn. Næst bænum verður gróðursettur blandskógur sem á að verða útivistarskógur með stígum og áningarstöðum. Lengra frá bænum er hugmyndin að rækta íslenskar tegundir s.s birki og víði. Ákveðið svæði er tileinkað landnemaspildum þar sem áhugasamir geta fengið land til uppgræðslu líkt og Þorlákshafnarbúar hafa gert um langa hríð. Þar hafa margar hendur unnið létt verk.
Þorlákshafnarsandur gefur okkur mörg tækifæri og með markvissri uppgræðslu sláum við margar flugur í einu höggi, heftum sandfok varanlega, byggjum upp frábært útivistarsvæði og bindum kolefni svo eitthvað sé nefnt.
Undirrituð saknaði þess að sjá ekki fleiri íbúa á kynningarfundinum því þetta er mjög áhugavert verkefni sem kemur okkur öllum við.
Hrönn Guðmundsdóttir
Verkefnastjóri Hekluskóga