Axel Örn Sæmundsson heiti ég og er 20 ára frambjóðandi á lista XO- framfarasinna og félagshyggjufólks í Ölfusi. Ég er nemi við Háskóla Íslands þar sem ég læri íþrótta- og heilsufræði og er ég búinn með 2 ár. Ég hef í mörg ár haft mikinn áhuga á sveitarstjórnarmálum og haft áhuga á að bjóða mig fram í sveitarstjórnarkosningum. Og nú er ég kominn með aldur, tækifærið bauðst og ég kýldi á það.
Ég ætti að vera mörgum Ölfusingum kunnugur en ég hef alla ævi búið í Þorlákshöfn og verið virkur í félagslífi. Ég æfði fótbolta með Ægi og badminton með Þór frá blautu barnsbeini en einnig þjálfað í yngri flokkum í fótboltanum hér heima sem og verið þjálfari í badmintoninu. Ég sat í ungmennaráði Ölfuss fyrir 2 árum, sit núna í ungmennaráði HSK sem mun koma að unglingalandsmóti UMFÍ sem verður í Þorlákshöfn í sumar. Í febrúar síðastliðnum var ég kosinn inn í Stúdentaráð Háskóla Íslands en 27 nemendur Háskólans sitja í því ráði. Það er mjög flott afrek að komast þar inn þó ég segi sjálfur frá. Ég er því mjög vanur alls konar nefndarstörfum þó ungur sé að árum.
Mín heitustu baráttumál eru líklega nokkuð augljós miðað við ofantalið en þau eru íþrótta- og æskulýðsmál, menntamál og menningarmál.
Börnin eru framtíðin og það er okkar að sjá til þess að þau fái allt það sem þau þurfa til þess að geta vaxið og dafnað í okkar fallega samfélagi. Við í Ölfusi búum við einhverja flottustu íþróttaaðstöðu landsins og eru það vissulega algjör forréttindi. Það er samt nauðsynlegt að standa ekki í stað heldur fylgja eftir þeirri markvissu uppbyggingu sem farið hefur fram á íþróttamannvirkjum í sveitarfélaginu sem og styða við bakið á okkar helsta afreksfólki.
Við stöndum vel í skólamálum og erum við með frábæra leikskólaaðstöðu sem og grunnskólaaðstöðu. Við viljum öll að börnin okkar fái þá þjónustu sem þau þurfa, hvort sem það sé að kennarinn þeirra sé vel menntaður eða að þau fái þann stuðning og úrræði sem hver og einn þarf á að halda. Vel er staðið að þessum málum í okkar frábæra grunnskóla.
Menningin blómstrar í Ölfusi og það þarf að passa upp á að svo verði áfram. Þetta er líklega einhver jákvæðasti pistill sem þið getið lesið en ég hef lítið út á hlutina að setja þar sem mér finnst okkar samfélag svo frábært og vel skipulagt. Við viljum gera hlutina vel og þannig hefur það verið í áraraðir hjá okkur í Ölfusi hvað varðar menningarmál. Helstu málefnin hér eru oftast þau sömu en ég vil sjá Hafnardaga vaxa og verða stærri. Hafnardagar eru tækifærið okkar til að sýna fólki hvers við erum megnug og verðum við að setja allt okkar púður í það þegar tækifærin gefast.
Til að taka þetta saman þá finnst mér samfélagið okkar frábært og þó ég sé afar jákvæður er auðvitað margt sem hægt er að bæta og laga og gerum við það ef við stöndum saman og vinnum að hlutunum sem ein heild en ekki sem einstaklingar. Ég vil með þessum pistli hvetja öll ungmenni með kosningarrétt til þess að kjósa og nýta þennan mikilvæga þátt í lýðræðissamfélagi. Förum á kjörstað og látum raddir unga fólksins í okkar frábæra samfélagi heyrast.
Ég vonast til þess að við getum sem samfélag staðið saman og komið Ölfusi á toppinn þar sem við eigum heima.
Axel Örn Sæmundsson
Skipar 9. sæti á lista Framfarasinna og félagshyggjufólks í Ölfusi, XO