D-listinn er í dreifbýlinu í Ölfusi

Í fyrra fluttist ég aftur á æskuslóðir mínar á Grásteini í Ölfusi. Lengi bjó ég í Reykjavík en síðustu árin í Hveragerði. Við fjölskyldan sækjum enn alla okkar þjónustu þangað en sem íbúi í dreifbýlinu, eru mér ýmis sveitarstjórnarmál hugleikin. Eftir smá umhugsun ákvað ég því að slá til og taka þátt. Ég þekkti ekki marga í Þorlákshöfn en eins og margir vita, er oft um það rætt hér í sveitinni að sveitarstjórnarmálin í Ölfusi snúist eingöngu um málefni Þorlákshafnar. Vissulega er þetta að hluta til rétt, en ef við stígum ekki fram sjálf til að hafa áhrif og fá á okkur hlustað, getum við svolítið sjálfum okkur um kennt. Það sama á við um umræðurnar í Þorlákshöfn. Þar talar fólk um að vita lítið um okkur í sveitinni en þó hefur það svo verið, að lítið hefur verið um að sveitarstjórnarfólk hafi sig mikið í frammi til samtals við okkur hér. Samskiptaleysið hefur því verið á báða bóga. Nú er ætlunin að breyta því.

Áherslur D-listans eru þær að auka á samtal við íbúa í dreifbýlinu og því völdumst við tvö úr dreifbýli á listann. Ég er í 9. sæti og í 2. sæti er Rakel Sveinsdóttir í Lindarbæ. Saman höfum við verið að heyra í sveitungunum okkar til að ræða helstu áherslumál. Í þeim samtölum hefur ýmislegt komið fram sem D-listinn ætlar að ráðast í. Skipulagsmál og uppbygging atvinnulífsins eru þar ofarlega. Þar vill D-listinn stórefla uppbyggingu ferðaþjónustu eða eins framarlega og sveitarfélagi er þess kostur. Þá ætlum við að endurskoða skipulagsmál þannig að Ölfus laði til sín fleiri nýja íbúa. Þar hef ég talað fyrir meira frjálsræði í stærðarmörkum lóða í dreifbýlinu. Með smærri lóðum opnast möguleikar til þess að fá fleira fólk af höfuðborgarsvæðinu, sem oftar en ekki er vel menntað fólk og jafnvel hálaunað. Til mikils getur verið að vinna fyrir okkar sveitarfélag að fjölga íbúum og yngja upp með fleira fjölskyldufólki. Þá hef ég talað fyrir því að fjölga aðkomuleiðum að Reykjadal í Ölfusi, með bættum vegi inn Ölkelduháls. Með því getum við dreift úr álagi á svæðinu og varið betur náttúruna okkar.

Björn Kjartansson
9. sæti D-listans í Ölfus