Þorlákshafnarbúinn Garðar Geirfinnsson hefur verið ráðinn verkefnastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ sem haldið verður í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina. Frá þessu segir á heimasíðu UMFÍ.
„Við erum klár fyrir Unglingalandsmót í Þorlákshöfn og erum að ljúka við skipulagningu skemmtidagskrárinnar,“ segir íþróttafræðingurinn Garðar Geirfinnsson í viðtali á heimasíðu UMFÍ.
Bæjarbúar í Þorlákshöfn og framkvæmdanefnd Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK), sem er mótahaldari Unglingalandsmótsins að þessu sinni, hafa unnið að undirbúningi mótsins lengi. Garðar segir nær allt klárt. Dagskráin liggur fyrir og mannvirkin tilbúin.
„Það er rosalega gott að halda Unglingalandsmót í Þorlákshöfn. Þau sem komu hingað á Unglingalandsmót UMFÍ þegar það var haldið í Þorlákshöfn árið 2008 segjast hafa orðið hissa á því hvað aðstaðan var góð.
„Nú erum við búin að búa til strandblakvöll og frísbígolfvöllurinn er í smiðum,“ segir Garðar og lofar heilmiklu fjöri í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina. „Án þess að ég fari nánar út í það þá verður hér þekktasta tónlistarfólk þjóðarinnar. Það er nefnilega svo gott að koma hér við áður en farið er út að troða upp á Þjóðhátíð í Eyjum,“ segir hann í viðtalinu.
Unglingalandsmót UMFÍ hafa verið haldin árlega um verslunarmannahelgi frá árinu 1992. Mótin hafa vaxið og sannað gildi sitt sem glæsilegar fjölskyldu- og íþróttahátíðir þar sem saman koma þúsundir barna og ungmenna ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá.
Unglingalandsmót UMFÍ er vímuefnalaus fjölskylduhátíð þar sem börn og unglingar á aldrinum 11 – 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
Opnað verður fyrir skráningu á Unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn 1. júlí. Ítarlegri upplýsingar um Unglingalandsmótið veita Garðar Geirfinnsson, verkefnastjóri Unglingalandsmótsins í Þorlákshöfn, í síma 846-1330 og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, í síma 861-8990.