Lýsi vill framlengingu á starfsleyfi sínu inn í bænum til eins árs

Lýsi hf. hefur óskað eftir endurnýjun starfsleyfis síns vegna fiskþurrkunar og pökkunar í Þorlákshöfn til eins árs.

Á síðasta bæjarstjórnarfundi, þann 11. júní, var lögð fram starfsleyfisskilyrði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands fyrir endurnýjun starfsleyfis Lýsis en þar er lagt til að starfsleyfið verði endurnýjað til eins árs en núverandi starfsleyfi rennur út 30. júní n.k.

Guðmundur Oddgeirsson leggst gegn því að starfsleyfi fyrirtækisins verði endurnýjað til eins árs og lagði hann fram eftirfarandi bókun:

„Lýsi hf hefur óskað eftir framlengingu starfsleyfis fiskþurrkunar um 12 mánuði eða fram á mitt ársins 2019.
Lýsi hf og bæjarstjórn Ölfuss í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands gerðu með sér samning um lokun verksmiðju fiskþurrkunar fyrir lok júní 2018, með fyrirvara um tafir skuli vera veittur sanngjarnur tímafrestur til að ljúka framkvæmdum.
Samningur þessi var samþykktur í bæjarstjórn 27/10/2016, á fundi nr. 237, með 6 atkvæðum en undirritaður greiddi atkvæði gegn samninginum og lagði fram bókun í því sambandi.
Framlenging um 12 mánuði er ekki ásættanleg að mínu mati.“

Gestur Þór Kristjánsson lagði til að fulltrúar sveitarfélagsins óskuðu eftir fundi með forsvarsmönnum Lýsis um endurnýjun leyfisins. Tillagan var samþykkt með sex atkvæðum en Guðmundur Oddgeirsson sat hjá.

Frestur til þess að skila inn athugasemdum rennur út þann 27. júní n.k.