Knattspyrnufélagið Ægir hefur ráðið Nenad Zivanovic sem þjálfara meistaraflokks karla næstu tvö tímabil. Ægismenn munu leika í 4. deild á næstu leiktíð eftir að hafa fallið úr 3. deildinni á dögunum.
„Nenad er frá Serbíu og er fæddur 1976 og hefur átt farsælan feril sem knattspyrnumaður í heimalandinu, í Færeyjum og ekki síst hér á Íslandi. Margir kannast við hann síðan hann spilaði í efstu deild með Breiðabliki. Hann var þar árin 2006-2008 en spilaði síðar með Þór og Fjarðabyggð til ársins 2013.“ Segir í tilkynningu Ægis um komu Nenad til félagsins.
Þá hefur hann þjálfað yngri flokka á Íslandi og var meðal annars spilandi aðstoðarþjálfari KF árið 2013. Hann fór aftur til Serbíu og gerðist aðalþjálfari liða í 2. deildinni þar í landi á árunum 2014 til 2016 en árið 2017 tók hann við þjálfarastarfinu hjá 2. deildar-liði Hattar en lauk störfum þar nýlega.
Nenad hefur UEFA „A“ þjálfaragráðu og býr að góðri reynslu sem leikmaður og þjálfari. „Markmiðið er að búa til öflugt lið og snúa okkar gengi til betri vegar á næstu tímabilum,“ segir að lokum í tilkynningu Ægis.