Baldur: „Við viljum sjá alla í stúkunni á fimmtudaginn“ – myndband

Mynd: Ólafur Þór / karfan.is

Þórsarar eru á mikilli siglingu í Domino’s deildinni í körfubolta þessa dagana og er Baldur Þór Ragnarsson að gera frábæra hluti á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari liðsins.

Hafnarfréttir slógu á þráðinn til Baldurs sem er mjög sáttur með gengi liðsins í undanförnum leikjum. „Það er alltaf gaman að vinna leiki og sérstaklega þegar liðið er að spila vel saman,“ segir Baldur Þór.

Sameiginleg sýn á verkefnið er lykillinn að velgengni segir Baldur. „Leikmenn samþykkja sitt hlutverk og setja liðið fyrir framan sjálfan sig. Okkar megingildi eru að vera í núinu, orka, óeigingirni, trú og agi. Þegar við fylgjum því getum við unnið alla.“

Baldur var fyrirliði Þórs til margra ára eða alveg þar til hann lagði skóna á hilluna fyrir tveimur árum. Hver er munurinn að vera á hliðarlínunni og að vera í búning á parketinu? „Þarf að hugsa aðeins meira núna. Hafði það hlutverk sem leikmaður að gefa liðinu orku. Það er eitthvað sem ég reyni að taka með mér sem þjálfari,“ segir Baldur.

Hallgrímur Brynjólfsson er aðstoðarþjálfari liðsins og segir Baldur samstarf þeirra mjög gott. „Það er gott að vinna með Hadda hann hefur mikla reynslu og hefur hjálpað mér mjög mikið.“

Á fimmtudaginn verður mikilvægur leikur í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn þegar stjörnuprýtt lið Stjörnunnar mætir í heimsókn. Við það tilefni hentu drengirnir í Þórsliðinu í þetta stórskemmtilega pepp-myndband fyrir leikinn þar sem þeir hvetja íbúa til að fjölmenna á völlinn og láta í sér heyra.

Hver er lykillinn að sigri gegn gífurlega sterku liði Stjörnunnar á fimmtudaginn að mati Baldurs? „Við þurfum gríðarlega orku í vörn og sókn til þess að vinna leikinn á fimmtudaginn. Eitt af því sem þarf að vera til staðar er mikið magn af stuðningsmönnum í stúkunni sem hvetja okkur áfram allan leikinn. Við viljum sjá alla í stúkunni á fimmtudaginn!“ Segir Baldur að lokum.