Nokkur umræða er nú á vettvangi sveitarfélaga í Árnessýslu um húsnæðismál Héraðsskjalasafns Árnesinga. Sveitarfélagið Ölfus hefur lagt þunga áherslu á að byggt verði sérhannað húsnæði utan um þessa mikilvægu starfsemi og henni fundinn staður í miðbæ Þorlákshafnar en safnið hefur á seinustu árum liðið fyrir þröngan kost í húsnæðismálum.
Í því samhengi hafa fulltrúar Ölfuss bent á ótvíræða hagkvæmni þess að byggja nýtt hús frekar en gamalt og staðsetja í miðbæ þar sem það verður áberandi. Til að fylgja málinu eftir hefur Ölfus boðið endurgjaldslausa lóð á besta stað og lagt drög að mögulegu útliti slíks húss.
Héraðsskjalasafn Árnesing hefur á seinustu árum liðið fyrir þröngan kost í húsnæðismálum. En þar eru nú varðveittir rúmlega 1 hillukílómeter (hkm) af skjölum. Meginstarfsemi skjalasafnsins hefur verið í Ráðhúsi Árborgar við Austurveg 2 á Selfossi og þá á skjalasafnið geymslur í Háheiði 9 á Selfossi.
Fyrir liggur að húsnæðið að Austurvegi er ófullnægjandi þegar horft er til fjölda starfsfólks og starfsemi, s.s. móttöku, skráningu og afgreiðslu skjala. Aðstaða gesta á lestrarsal er ónóg og skil á milli starfsaðstöðu starfsfólks og gesta er óskýr. Þar við bætist að Sveitarfélagið Árborg hefur kynnt að það þurfi sjálft að nýta tilgreint húsnæði fyrir sína starfsemi og því óskað eftir að Héraðsskjalasafnið finni sér nýtt húsnæði.
Árið 2016 var unnin rýmisáætlun fyrir skjalasafnið þar sem gert var ráð fyrir um 800m2 húsnæði fyrir rekstur þess. Í stefnumótun fyrir árin 2018 til 2022 kemur fram að á næstu 30 árum megi gera ráð fyrir því að skjalasafnið taki við um 2 hkm af pappírsskjölum frá afhendingarskyldum aðilum.
Því er ljóst að Héraðsskjalasafnið þarf stærra húsnæði til að geta sinnt hlutverki sínu og tekið við þeim skjölum sem því berast.
Með þetta í huga hefur Sveitarfélagið Ölfus boðið gjaldlausa lóð í miðbæ Þorlákshafnar undir sérhannað húsnæði fyrir Héraðsskjalasafnið. Elliði Vignisson bæjarstjóri sagði í samtali við Hafnafréttir að lóðin sem boðin hafi verið sé við Selvogsbraut í hjarta bæjarins og ljóst að þar yrði safninu gert hátt undirhöfði. „Mestu skiptir náttúrulega að með þessu værum við að hefja Héraðsskjalasafnið til aukins vegs og virðingar. Gera því hátt undir höfði og búa vel að starfsemi þess. Að auki þykir mér vandséð hvað mælt getur gegn því að Héraðsskjalasafnið verði flutt í Þorlákshöfn enda liggur fyrir að í dag er ekkert verkefni tengt sunnlensku samstarfi í Sveitarfélaginu Ölfus á meðan að td. Listasafnið og Skóla- og velferðarþjónustan er í Hveragerði, og skrifstofur SASS, byggðasafn Árnesinga og fl. er í Árborg.“ Elliði segir að Sunnlensk sveitarfélög hafi ætíð borið gæfu til að sýna hvert öðru skilning og mæta hvert öðru af sanngirni. „Sanngirnissjónarmið hljóta því að vera fyrir því að skoðað verði í fullri alvöru að meta þann kost sem Sveitarfélagið Ölfus hefur lagt til og staðsetja Héraðsskjalasafn Árnesinga í miðbæ Þorlákshafnar í til þess bæru húsnæði.“