Badmintondeild Þórs gaf grunnskólanum spaða og flugur

Í tilefni af 50 ára afmæli Badmintonsambands Íslands árið 2018 gaf Tennis- og badmintonfélag Reykjavíkur (TBR) sambandinu 500 badmintonspaða og 500 flugur sem afhent verða á næstu 5 árum, 100 stk ár hvert. Badmintonsambandið ætlar að nota þessa gjöf til uppbyggingar íþróttarinnar um allt land og auglýsti eftir umsóknum frá aðildafélögunum.

Badmintondeild Þórs sótti um bæði badmintonspaða og flugur til að gefa Grunnskólanum í Þorlákshöfn með það að markmiði að endurnýja gamlan búnað skólans og um leið efla kennslu og áhuga á íþróttinni. Nefnd á vegum Badmintonsambandsins fór yfir umsóknirnar og sá um hvernig dreifingu var háttað.

Badmintondeild Þórs fékk 10 badmintonspaða og 3 box af flugum (18 stykki) úr þessari fyrstu úthlutun Badmintonsambandsins. Það var svo í vikunni sem að badmintondeildin gaf grunnskólanum spaðana og flugurnar til að nota við íþróttakennslu í skólanum.

Sæmundur Steingrímsson formaður badmintondeildarinnar afhenti Ingibjörgu Steinunni Sæmundsdóttur íþróttakennara við grunnskólann gjöfina og á meðfylgjandi mynd má sjá þau ásamt iðkendum og jafnframt nemendum skólans taka við gjöfinni. Deildin ætlar sér að sækja aftur um í næstu úthlutunum með von um að geta endurnýjað búnað skólans að fullu.