Það var mikið um dýrðir þegar Listakvöld var haldið í fyrsta sinn í Grunnskólanum í Þorlákshöfn í gær. Gangarnir voru fullir af allskyns glæsilegum listmunum, handverki og málverkum sem börnin hafa verið að vinna að í vetur og þá komu einnig yngri og eldri skólalúðrasveitirnar fram, kórarnir báðir, dansatriði sýnt og áhorfendur fengu að kíkja á opna leiklistaræfingu. Það var margt um manninn, allstaðar að sjá áhugasama foreldra, ömmur og afa eða aðra listunnendur. Þá var einnig gaman að sjá gleðina og stoltið skína úr andlitum nemendanna, enda tilefni til.
Ólína Þorleifsdóttir, skólastjóri Grunnskólans í Þorlákshöfn, sagði að Listakvöldið hefði tekist mjög vel og að þetta væri klárlega eitthvað sem þau ætluðu að byggja á. ,,Við ætlum að halda áfram að þróa þetta, bæta jafnvel við götuhúsi næst. Við vorum rosalega ánægð með hve margir komu, krakkarnir voru að sýna foreldrum sínum og stemningin var afslöppuð og góð”
Aðspurð hvort að stefnt sé að því að gera þetta að árlegum viðburði segir Ólína:
,,Já, það er hugmyndin. Að ákveðnu leiti er þetta eins og afturhvarf til fortíðar því einusinni voru oft haldnar handavinnusýningar, en núna er lúðrasveitin að spila, dansatriði, leiklistaratriði og fleira skemmtilegt”.
Það er stutt á milli stórra viðburða í skólanum því í lok maí verður Þorpið haldið, en eins og margir vita er það mikið tilhlökkunarefni hjá lang flestum nemendum. Þorpið er fríríki sem nemendur búa til þar sem flest þau störf sem þarf til að halda þorpi gangandi eru unnin af þeim sjálfum. Hápunkturinn er svo þegar Þorpið opnar fyrir gesti og gangandi og fólki gefst þá kostur á að skipta íslenskum krónum í þollara og njóta alls þess sem Þorpið hefur upp á að bjóða. Meira um það síðar!
Hér má sjá myndir sem voru teknar á Listakvöldinu