Ævintýraleg dagskrá á Hendur í höfn í höfuðborg hamingjunnar í sumar!

Fjölbreyttir viðburðir í allt sumar

Það verður nóg um að vera í allt sumar á Hendur í höfn sem kynnir hér sumardagskrá sína. Nú um þessar mundir er ár síðan Hendur í höfn flutti á nýjan og stærri stað. Á sama tíma fóru þau að prófa sig áfram með að halda viðburði sem eru nú orðnir 17 talsins og viðtökurnar hafa verið frábærar. Heimafólk er mjög duglegt að sækja viðburðina og einnig hefur aðsókn fólks frá nágrannasveitarfélögum verið mikil.

Dagskrá þessa sumars samanstendur af mjög ólíkum viðburðum og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Nánari upplýsingar um hvern og einn viðburð verða aðgengilegar á facebook síðunni Hendur í höfn á næstu dögum, en miðasalan er nú þegar hafin á viðburð Lay Low og Búkalú.
Hefst nú kynningin.

Lay Low

Eins og áður hefur komið fram á hafnarfréttum kemur Ölfusingurinn Lay Low fram 25. maí. Á tónleikunum ætlar hún að fara yfir ferilinn og taka lög úr ýmsum áttum. Þetta verður á persónulegum nótum og segist hún meira að segja vera opin fyrir óskalögum.

Sóli Hólm – Varist eftirhermur!

Ný uppistandssýning Sólmundar Hólm kallast Varist eftirhermur.

Sóli Hólm mætir með splunkunýja sýningu sem hefur slegið í gegn víða um land. Sýningin ber heitið Varist eftirhermur!
Lýsandi titill þar sem fáir hér á landi geta brugðið sér í líki jafnmargra þjóðþekktra Íslendinga og Sóli Hólm. Sóli Hólm sló í gegn á síðasta ári þegar hann setti sína fyrstu uppistandssýningu á svið í byrjun árs. Sýningarnar áttu upphaflega að vera fjórar en urðu á endanum 35 og kom hann meðal annars með sýninguna á Hendur í höfn. Það er gaman að segja frá því að sama kvöld var einnig árshátíð Sveitafélagsins Ölfuss en það kom ekki að sök, fullt hús og frábær stemning!

Pöbb kviss

Það vita eflaust ekki allir lesendur hvað Pöbb kviss (Pub Quiz) er, en það er í raun spurningakeppni. Þá kemur fólk saman, skiptir sér í lið sem í sameiningu svara spurningum sem lesnar eru upp og það lið sem er með flest rétt svör vinnur til verðlauna. Þessari spurningakeppni ætla þær vinkonur að stýra, Berglind Dan og Talía Fönn, og búast má við miklum hlátrasköllum og skemmtilegheitum.

Búkalú

Margrét Erla Maack býður uppáhaldsskemmtikröftunum sínum í þeysireið um landið og þau koma við á Hendur í Höfn laugardagskvöldið 22. júní. Með Margréti á sýningunni verða svipudrottningin Diva Hollywood frá Englandi, Axel Diego, og frá New York kemur stór skemmtipakki: Hinn seiðandi Wilfredo, eldgyðjan Sage Sovereign, boylesque-parið Matt Knife og Cubby Hall og ein vinsælasta burlesque-dansmæri borgarinnar, The Maine Attraction. Sýningin er bönnuð innan 18 ára og hentar ekki þeim sem óttast undur mannslíkamans. Eins og áður sagði er miðasalan hafin og um að gera að bíða ekki eftir neinu, heldur tryggja sér miða strax á bukalu.net.

Bríet

Tónlistarkonan Bríet skaust upp á sjónarsviðið í íslenskri tónlistarsenu fyrir rétt rúmlega ári síðan og hefur síðan þá flogið hratt og gert nokkur lög mjög vinsæl. Hún var tilnefnd sem söngkona ársins og hlaut verðlaunin bjartasta vonin á íslensku tónlistarverðlaununum sem afhent voru í mars síðast liðnum.
Bríet mun fara yfir árið sitt og tala um ferlið sem átti sér stað frá því hún spilaði á Íslenska barnum til dagsins í dag. Lögin hennar verða spiluð í nýjum búning og einnig verður frumflutt óútgefið efni.

Mexíkósk helgi

Dagana 12.-14. júlí verður hefðbundnum matseðli á Hendur í höfn skipt út fyrir rétti sem eiga rætur sínar að rekja til Mexíkó. Þetta verður allt kynnt vel á facebook síðunni Hendur í höfn þegar nær dregur.

Góss

GÓSSið skipa þau Sigríður Thorlacius, Sigurður Guðmundsson og Guðmundur Óskar Guðmundsson og þau þarf nú vart að kynna fyrir íslensku tónlistaráhugafólki, enda fremst á sínu sviði öll þrjú. Góss hélt tónleika á Hendur í höfn síðasta sumar og ætla líka að koma við á hringferð sinni sumarið 2019.

Föstudagslögin

Stebbi Jak Dimmusöngvari og Andri Ívars uppistandari og gítarleikari eru dúó sem kallar sig föstudagslögin. Þeir ætla að flytja öll bestu lög í heimi í tilþrifamiklum „akústískum“ útsetningum og gamansögur sagðar á milli laga. Látið ekki nafn viðburðarins blekkja ykkur, því þessi viðburður verður á fimmtudagskvöldinu fyrir Hafnardaga

Teitur Magnússon

Tónlistarmaðurinn Teitur Magnússon hefur gefið út tvær plötur og spilað víða síðustu ár. Fyrri platan hans, 27, kom út árið 2014 og fékk frábærar viðtökur, bæði hlustenda og gagnrýnenda og var hann meðal annars tilnefndur til Norrænu tónlistarverðlaunanna ásamt Björk og fleirum. Seinni platan hans kom svo út í fyrra og heitir hún Orna. Hægt er að hlusta á þær báðar til dæmis á Spotify og mælir undirrituð sterklega með því.
Áður hafði Teitur gert garðinn frægan sem söngvari og lagahöfundur reggae sveitar sinnar Ojba Rasta sem einnig var mjög vinsæl

Guðrún Gunnars

Söngkonuna Guðrúnu Gunnarsdóttur þekkja nú flestir eldri en tvævetra enda hefur hún komið víða við og gefið út margar plötur á löngum ferli sínum, auk þess sem rödd hennar hljómar reglulega í útvarpinu. Hún kemur á Hendur í höfn ásamt tríói Gunnars Gunnarssonar píanóleikara þar sem þau ætla að flytja lög sem þau hafa spilað saman síðasta áratuginn og hljóðritað. Lagalistinn verður að sögn Guðrúnar dásamlegur kokteill, blanda af íslenskum, norrænum, írskum og skoskum lögum.

Eins og sjá má á þessari yfirferð fær enginn Þorlákshafnarbúi tækifæri til þess að láta sér leiðast í sumar. Maður er manns gaman og fátt skemmtilegra en að borða góðan mat og ýmist njóta góðrar tónlistar eða láta skemmta sér.
Rétt er að minna á að það borgar sig alltaf að festa sér miða tímanlega og bóka borð á hendurihofn@hendurihofn.is hafi fólk hug á að gæða sér á veitingum fyrir viðburðina.