Á sjómannadaginn verður síðasta hefðbundna messa Sr. Baldurs Kristjánssonar þar sem hann mun láta af störfum á næstunni. Baldur kom til Þorlákshafnar haustið 1998 og hóf störf sem prestur og segist strax hafa verið mjög vel tekið. Hann hefur þjónað í þessu prestakalli í 21 ár og meðal annars skírt á milli 300-400 börn, fermt um það bil 400 börn og jarðað og gift eftir þörfum, en segir þetta hafa verið nokkuð rólegt líf.
Við spurðum Sr. Baldur hvort hann lumaði á einni góðri sögu frá þessum síðustu 21 árum
Allar góðar sögur halla að einhverra dómi á einhverja og ég halla aldrei á svonefnd sóknarbörn mín. Öll með tölu eru þau gáfuð ofurmenni, raungóð og hlý. Gleymi samt aldrei hvernig Pétur Friðriksson brosti út í annað þegar ég sagði nýfluttur hópi manna að það væri góður andi í prestsbústaðnum Háaleiti. Þar hafði Benni Thor búið um langt skeið. Miklir höfðingjar báðir tveir og raunar þessi kynslóð öll. Minnistæðar manneskjur.
Og hvað skyldi taka við?
,,Vonandi bara hæfilega löng, þjáningarlítil elli kerling sem er eina konan sem lítur við manni nú orðið. Ég ætla að búa sem mest einn í húsi sem ég og mín unga kona eigum að Svínafelli í Öræfum og þangað er sóknarbörnum mínum og öðrum vinum boðið að koma og líta við þegar þeir eru á ferðinni.„
Mig langar að bæta við að ég verð ævinlega þakklátur fólkinu sem ég skírði árið 2014, varla talandi og bið þá afsökunar sem ég jarðaði, ef þeir sjá þetta. Met mikils elskulegheit og umburðarlyndi sem ég mætti allstaðar hálf málstola eftir heilablóðfall sem ég fékk 2013. Þá sannfærðist ég um það að hingað niður í sandinn fluttust ekki slubbertar og dusilmenni heldur upp til hópa gott fólk, enda byggðist hér upp glæsilegur staður.
Eftir sjómannadagsmessuna, sem verður á sunnudag kl. 11, verður kirkjugestum boðið að þiggja veitingar og hvetjum við að sjálfsögðu alla þá sem eiga heimangengt gera það.