Hamingjan við hafið
Það er með mikilli eftivæntingu og tilhlökkun sem ég tilkynni að í ágúst verður sett á laggirnar glæný bæjarhátíð í Þorlákshöfn sem ber heitið Hamingjan við hafið.
Hátíðin, sem er að sjálfsögðu byggð á góðum og traustum grunni Hafnardaga, verður öllu stærri í sniðum en forveri hennar og leggja bæði Sveitafélagið Ölfus og fyrirtæki sem tengjast Þorlákshöfn og sveitarfélaginu mun meira fjármagn til en hingað til hefur verið gert.
Undanfarin ár hefur verið unnið markvisst í kynningu á Sveitarfélaginu og ákveðið var að endurskoða bæjarhátíðina í kjölfarið og nýta sér þann byr sem er í seglunum. Tilgangur þessara áherslubreytinga er fyrst og fremst að auka framboð af menningu og dægradvöl fyrir íbúa og gesti sveitarfélagsins. Samhliða er horft til þess að stækka bæjarhátíðina, auka fjölbreytni, útvíkka áherslur og nýta hana til þess að kynna okkar góða bæ og Sveitafélagið Ölfus í heild sinni. Þannig viljum við höfða til fleiri gesta, bæði úr nágrannasveitafélögum sem og af höfuðborgarsvæðinu enda mjög stutt að fara og langflestir dagskrárliðir verða öllum að kostnaðarlausu.
Markmið Hamingjunnar
Markmiðið er að Hamingjan við hafið skapi vettvang þar sem íbúar geta sameinast og átt góðar stundir, efli ímynd Sveitafélagsins Ölfuss sem býr yfir kröftugu menningar- og atvinnulífi og tækifæri til að sýna gestum okkar þá möguleika sem hér eru bæði til búsetu og í atvinnu. Einnig er markmiðið að minna íbúa og gesti á þá skapandi auðlind sem íbúar sveitafélagins búa yfir sem og að efla listsköpun þeirra á meðal.
Hamingjan við hafið stendur yfir í 6 daga, frá þriðjudeginum 6. ágúst og fram á sunnudagskvöldið 11. ágúst. Dagskráin verður þétt og með spennandi viðburðum fyrir alla fjölskylduna og áhersla lögð á að fjölskyldan geti notið lífsins saman á ólíkum viðburðum.
Ákvörðun um nýtt nafn
Ákvörðun um nýtt nafn á hátíðina okkar var tekin á fundi Markaðs- og menningarnefndar þriðjudaginn 2. júlí. Þar voru kynntar nokkrar tillögur að nafni og var það einróma álit nefndarinnar að hún skilda bera nafnið Hamingjan við hafið. Þannig kallast hún einstaklega vel á við markaðsátak Sveitafélagsins Ölfuss og víst að slagorðið okkar, Hamingjan er hér, mun eiga við sem aldrei fyrr.
Hamingjan er hér!
Hamingjan verður svo sannarlega í Þorlákshöfn, höfuðborg hamingjunnar, þessa daga í ágústmánuði eins og aðra daga ársins. Endilega bjóðið vinum og ættingjum að koma í Hamingjuna og eiga með okkur góðar stundir! Sem fyrr þá skiptir auðvitað þátttaka íbúa öllu máli og langar mig að að hvetja ykkur af öllu mínu hjarta til að vera “all in” eins og við segjum 🙂
Á næstu dögum verða kynntir dagskráliðir á facebook síðu Hamingjunnar við hafið og dagskráin í heild sinni birtist um miðjan júlí.
Kærar kveðjur til ykkar allra,
Ása Berglind Hjálmarsdóttir
verkefnastjóri á menningarsviði Ölfuss