Hamingjan við hafið, ný bæjar- og fjölskylduhátíð í Þorlákshöfn, hefst í dag þriðjudaginn 6. ágúst. Um helgina var dagskrá hátíðarinnar dreift í öll hús í Þorlákshöfn og mun pósturinn bera hana út í dreifbýli Ölfuss í dag og á morgun, sem og í nágrannasveitarfélög.
Dagskrána má einnig nálgast sem PDF skjal á þessari slóð https://www.olfus.is/static/files/Skrar/vefdagskra.pdf
Fyrsta setning Hamingjunnar við hafið
Dagskráin hefst með því að Hamingjurásin fer í loftið kl. 17 og hægt er að hlusta á hana á FM 106,1 eða á vefslóðinni spilarinn.is sem og í appi sem hægt er að sækja í síma og heitir Spilarinn. Grétar Ingi Erlendsson, formaður menningarnefndar, mun setja hátíðina á Hamingjurásinni kl. 17.30 og á sama tíma verður einnig stutt kynning á dagskráliðum Hamingjurásarinnar sem að þessu sinni sendir út beint frá Hendur í höfn.
Sýning ofan í sundlauginni
Í sundlauginni verður formleg opnun á sýningu sem gekk undir vinnuheitinu Skapandi en ber nafnið Strik á blað. Sýningin verður í pottunum og sundlauginni en við upphaf hennar kl. 18 ætlum við að hittast í anddyrinu í sundlauginni, kynna efni sýningarinnar og klappa fyrir listamönnunum sem allir eiga það sameiginlegt að hafa verið á teikninámskeiði í sumar undir handleiðslu Ágústs Freys Kristinssonar. Eftir það geta allir farið í sund og að venju er frítt fyrir börn og á sýningaropnuninni verður einnig frítt fyrir fullorðna.
Hverfafundir
Síðasti dagskrárliður þessa fyrsta dags Hamingjunnar verður kl. 20 í Grunnskólanum í Þorlákshöfn en þangað eru íbúar boðaðir á fund með sínum hverfanefndum til þess að stilla saman strengi fyrir vikuna. Það verða tveir viðburðir sem hverfin taka þátt í saman, annarsvegar Hverfin berjast, fótboltakeppni á milli hverfanna sem hefst kl. 19 á miðvikudag og svo Hverfapartý í bræðslunni á laugardagskvöld með tilheyrandi skrúðgöngu.
Hvernig verður þetta hverfapartý?
Margir hafa velt fyrir sér hverfapartýinu en þar ætlum við að koma saman í gömlu bræðslunni við Hafnarskeið 8. Þá mun hvert hverfi fá tjald sem tjaldað verður inni í bræðslu og eru tjöldin hugsuð sem “base” fyrir hvert hverfi. Hverfanefndirnar hafa verið að undirbúa það hvernig skreyta á tjöldin og umhverfið í kring, tónlistaratriði og hverskonar veitingar hverfið muni bjóða upp á.
Þarna ætla Þorlákshafnarbúar að bjóða gestum í Hamingjunni að koma og eiga með okkur góða stund, svona eins og í alvöru góðu bílskúrspartýi þar sem allir eru velkomnir, ásamt því að gleðjast saman með nágrönnunum sem við hittum allt of sjaldan.
Í beinu framhaldi af hverfapartýunum í bræðslunni verður kveikt upp í báli í portinu við bræðsluna og þar mun Jarl Sigurgeirsson leiða Hamingjusama gesti í söng fram að glæsilegri flugeldasýningu.
Það er von mín að allir íbúar, gestir þeirra og aðrir gestir munu taka virkan þátt í dagskránni og eiga saman góðar stundir í Hamingjunni við hafið.
Ef spurningar vakna er velkomið að senda línu á hamingjanvidhafid@gmail.com
Ása Berglind Hjálmarsdóttir
Verkefnastjóri á menningarsviði Ölfuss