Lyktarmengun senn á enda – Katrín í Lýsi boðar breytingar

dolus01Slæm lykt hefur legið yfir þorpinu seinustu daga eins og margir íbúar hafa orðið varir við. Mikil umræða hefur skapast á samfélagsmiðlum þar sem óánægðir íbúar láta skoðanir sínar á málinu í ljós. Samkvæmt óformlegri netkönnun sem Hafnarfréttir útbjuggu eru rúmlega 85% svarenda sammála því að lyktarmengun sé frekar eða mjög mikið vandamál í Þorlákshöfn

 

mengun_nidurstodurÞó svo að þetta sé óformleg netkönnun þá má draga af þessu þá ályktun að það sé mikil óánægja meðal íbúa með þá lyktarmengun sem er í þorpinu.

Alls hefur Heilbrigðiseftirlit Suðurlands móttekið 13 kvartanir frá 10 aðilum vegna lyktarmengunar í Þorlákshöfn á tímabilinu 28. júní til 1. júlí samkvæmt upplýsingum frá Elsu Ingjaldsdóttur, framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Kvartanirnar snúa að hausaþurrkun í þorpinu en þær eru tvær. Ekki fengust upplýsingar um hvora hausaþurrkunina væri að ræða. Önnur þeirra, Fiskmark, hefur verið með mjög litla starfsemi að undanförnu samkvæmt Hallgrími Sigurðssyni eiganda Fiskmarks og því ólíklegt að lyktin komi þaðan.

Hin hausaþurrkunin er í eigu Lýsi hf. en það fyrirtæki hefur kostað tugum milljóna í mengunarvarnabúnað á liðnum árum til að stemma stigum við mengun og hefur líklegast engin önnur hausaverksmiðja á landinu lagt sig jafn mikið fram og fjárfest jafn miklu í þeim tilgangi að minnka lykt frá starfsemi sinni.

„Augljóst er að við höfum ekki náð tilætluðum árangri með aðgerðum okkur í óhagstæðum vindáttum og því fáir varanlegir kostir eftir aðrir en að flytja starfsemina út fyrir bæinn. Því höfum við tekið ákvörðun um flutning og höfum undanfarna mánuði verið í viðræðum við bæjaryfirvöld um heppilega staðsetningu sem örugglega veldur ekki lyktarmengun í bænum“ sagði Katrín Pétursdóttir forstjóri Lýsi hf. í samtali við Hafnarfréttir.

Bæjaryfirvöld hafa unnið faglega að  málinu seinustu mánuði og hafa komið með tillögu að staðsetningu sem hentar Lýsi hf. Bæjaryfirvöld vinna nú í því að tryggja aðkomu Orkuveitunnar að verkefninu þar sem það þarf að tryggja heitt vatn að lóðinni. Samkvæmt Katrínu á eftir að fara betur yfir áætlanir um hönnun og byggingartíma en unnið er að því að stytta hann eins og kostur er.

„Okkur þykir það miður að íbúar Þorlákshafnar verði fyrir ónæði vegna reksturs okkar á hausaverksmiðju félagsins en það er einlæg von okkar að við mætum skilningi á meðan uppbyggingu nýrrar verksmiðju stendur“ sagði Katrín.

Það er því ljóst að breytinga er að vænta hjá Lýsi hf. sem munu koma í veg fyrir lyktarmengun í Þorlákshöfn. Þessar fyrirætlanir Lýsi hf. bera vott um samfélagslega ábyrgð fyrirtækisins og ber það að virða.