Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, var í Ölfusinu í dag þar sem hún heimsótti nokkur fyrirtæki í sveitarfélaginu og fundaði með fulltrúum bæjarstjórnar Ölfuss um málefni sveitarfélagsins og tækifærin sem felast í matvælaframleiðslu og umhverfismálum.
Forsætisráðherra heimsótti frumkvöðlafyrirtækið Algeainnovation sem er að hefja umhverfisvæna ræktun á smáþörungum með endunýttri orku frá Hellisheiðarvirkjun.
Þá kom hún við í vatnsverksmiðju Icelandic glacial í Ölfusi og í seiðaeldisstöð Laxa en fyrirtækið rekur tvær seiðaeldisstöðvar að Bakka og Fiskalóni í Ölfusi auk þess sem landstöð er starfrækt í Þorlákshöfn.
Loks var Hafnarnes Ver í Þorlákshöfn sótt heim en fyrirtækið sérhæfir sig í vinnslu á Sæbjúgum og er dæmi um nýsköpun tengda sjávarútvegi. Öll sæbjúgnaframleiðslan er þurrkuð og send til Kína.