Icelandic Glacial stefnir á að reisa nýja vatnsverksmiðju í Ölfusi innan tveggja til þriggja ára. Jón Ólafsson, stjórnarformaður og stofnandi fyrirtækisins, sagði frá þessum áformum í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Vatnsfyrirtækið var að tilkynna 66 milljón dollara fjárfestingu í fyrirtækinu. „Af því eru 35 milljónir í reiðufé og 31 milljón, var verið að skuldbreyta hluthafalánum í hlutafé. Nú erum við komin á þann stað að geta gert það sem við ætlum að gera. Að gefa í,“ sagði Jón í samtali við þá Gulla Helga og Heimi Karlsson í morgun.
Hann segir að frá upphafi sé búið að setja 180 milljónir dollara í fyrirtækið. „Það er mun meira en það kostar að byggja eitt álver á Íslandi.“
Jón segir að verksmiðjan í Ölfusi kostaði um 40 milljón dollara en restin af þessum 180 milljónum hafi farið í að byggja upp vörumerkið. Icelandic Glacial vatnið hefur einmitt verið áberandi í þekktum sjónvarpsþáttum og þá hefur fyrirtækið gert samning um að vera aðal vatnið fyrir rauða dregilinn á Golden Globes hátíðinni. „Þegar við erum komin á þennan stað, þá erum við orðin „alvöru“. Menn eru að koma til okkar og segja „Við viljum vera með ykkur. Þið eru betri og hreinni en aðrir.“