Sveitarfélagið Ölfus sendi nýverið erindi til samgönguráðs þar sem áhersla er lögð á frekar uppbyggingu hafnarinnar og þá sérstaklega með tilliti til vaxandi hlutverks hennar í inn- og útflutningi.
Meðal þess sem kemur fram er að áætlaður heildarkostnaður við breytingar sem myndu gera það mögulegt að taka á móti 180 til 190 metra löngum skipum og 35 metra breiðum sé um 2,5 milljarðar. Af þeirri upphæð er 1,1 ma. kr. hlutur sveitarfélagsins og ríkisstyrkur um 1,3 ma. kr. Nú þegar eru 461 m.kr. í Samgönguáætlun og því þarf styrkurinn einungis að hækka um 680 m.kr. til viðbótar til að tryggja þetta mikilvæga skref.
Ef af þessari framkvæmd verður þá munu stærri skip leggjast að Svartaskersbryggju en endurnýja þarf hana. Að auki þarf að víkka innsiglinguna, auka snúningsrými, fjarlægja tunnu og lengja Suðurvaragarð um u.þ.b. 150 metra. Miðað er við að ytri innsigling verði 150 metra breið með 10 m dýpi en sú innri 120 metra með 8 m dýpi. Miðað er við snúningsrými allt að 270 metra og dýpkað verði inn í land og Austurvaragarður styttur. Til að draga úr viðhaldsdýpkun er gert ráð fyrir að byggja sandfangara austan við höfnina.
Í fundargerð hafnarstjórnar kemur fram að „uppbygging á ferjuhöfnin í Þorlákshöfn felur í sér tækifæri til vaxtar og nýsköpunar í atvinnulífi og skapar ný tækifæri fyrir útflytjendur um land allt. Góðar líkur eru á að fjárfesting í hafnarbótum, umfram það sem viðhald núverandi hafnarmannvirkja kallar á, myndi skila sér til þjóðarbúsins á tiltölulega fáum árum vegna verðmætaaukningar og aukinnar framleiðslu í ferskvöru.“