Í þessum greinarstúf verður stiklað á stóru um starfið okkar hjá yngri flokkum Ægis á liðnu tímabili og því sem er framundan. Síðasta tímabil var gott í starfi yngri flokka Ægis, góð þátttaka á æfingum allra flokka og mikill áhugi krakkanna. Sumarið í fótboltanum var að venju nokkuð annasamt.
7. fl. fór á mót TM-mót Stjörnunnar í lok apríl og gekk vel. Flott ferð á Norðurálsmótið á Akranesi þar sem var gist í blíðuveðri. Allir sáttir þar og unnu flesta leiki. Í knattspyrnuskólanum var æft vel í sumar og svo var sumrinu slúttað með Weetos-mótinu í Mosfellsbæ en þar kepptum við með tvö lið og þau stóðu sig bæði vel.
6. flokkur fór á Hnokka- og Hnátumót sem eru stutt hraðmót. 6. flokkur karla sigldi svo til Vestmannaeyja og tókust þar við Eyjapeyja og fleiri til. Stúlkurnar fóru og tóku þátt í Símamótinu sem Breiðablik heldur í Kópavogi og gekk vel.
5. flokkur karla tók þátt í Faxaflóamótinu og Íslandsmótinu, þar var gengi þeirra með ágætum, það var bland í poka sigrar, jafntefli og töp. Svo fóru strákarnir norður í land og tóku þátt í N1 – mótinu sem KA heldur. Þar var gengi okkar manna ágætt. Þar voru vítaspyrnukeppnir nokkuð áberandi sem duttu með okkar strákum. Ferðin tókst með miklum ágætum og meira segja stefna pabbarnir á þátttöku í Pollamóti Þórs að ári sem fer ávallt fram á sama tíma og N1 – mótið.
4. flokkur karla og kvenna tóku þátt í Íslandsmóti sem og Rey-Cup sem er alþjóðlegt mót sem Þróttur í Reykjavík heldur árlega í Laugardalnum. Stelpurnar áttu hörku sumar og komust í úrslitakeppni Íslandsmótsins og náðu þriðja sætinu á Rey Cup.
3. fl. karla gerði góða hluti og enduðu í 4. sæti í A – riðli Íslandsmótsins og fóru alla leið í undanúrslit í bikarkeppninni. Gengi þeirra í sumar var með miklum ágætum.
Lokahóf yngri flokkanna var svo haldið í upphafi septembermánaðar þar sem öllum þátttakendum voru veitt viðurkenningarskjal fyrir þátttöku. Einnig fengu allir iðkendur Ægisjakka að gjöf. Barna- og unglingaráð Ægis veitir viðurkenninguna Frábær liðsfélagi þvert á flokki.
Nú erum við að hefja æfingar á nýjan leik, sumir iðkendur færast á milli flokka og aðrir færast á eldra ár í sínum flokkum. Skipting í flokkana er eftirfarandi:
iðkendur í elsta árgang leikskólans – 8. fl.
iðkendur í 1. og 2. bekk – 7. fl.
iðkendur í 3. og 4. bekk – 6. fl.
iðkendur í 5. og 6. bekk 5. fl.
iðkendur í 7. og 8. bekk – 4. fl.
iðkendur í 9. og 10. bekk – 3 fl.
Í nóvember ætlum við að taka þátt í svokölluðu haust Faxaflóamóti og taka 5., 4. og 3. flokkur þátt í því. Þetta þýðir það að við erum komin með meira af verkefnum, sem er mjög jákvætt.
Hér er æfingataflan okkar í haust, við reynum að vera sem mest úti á meðan veðuraðstæður leyfa. Það eru allir velkomnir að koma og prófa að æfa og upplifa fjörið í fótboltanum.
Minni svo á síðu yngri flokka Ægis – https://aegirfc.weebly.com/ sem og appið sem er stútfullt af upplýsingum fyrir foreldra og iðkendur, hér er hægt að nálgast appið:
Með fótboltakveðju,
Sveinbjörn Jón Ásgrímsson