Gaman saman

innflytjendur_bergheimar01Mál innflytjenda hafa verið ofarlega á baugi síðustu vikur og mánuði. Fólk streymir til annarra landa í leit að betra lífi og hafa fjölmargir innflytjendur lagt leið sína til Íslands. Samkvæmt tölum Hagstofunnar frá janúar 2015 voru tæplega 9% íbúa á Íslandi innflytjendur, flestir frá Póllandi.

Á haustmánuðum 2015 stóð okkur til boða að sækja um styrk til Þróunarsjóðs innflytjendamála. Þar sem margir innflytjendur eru búsettir í Þorlákshöfn sáum við þetta sem tilvalið tækifæri til að efla stöðu innflytjenda í samfélaginu okkar og til að koma á móts við erlenda foreldra leikskólabarna. Við sóttum um styrkinn og fengum helming þeirra upphæðar sem við við sóttum um. Okkar frábæra bæjarstjórn tók sig svo til og styrkti verkefnið um það sem upp á vantaði og erum við ótrúlega þakklátar fyrir það.

innflytjendur_bergheimar02Markmiðið með námskeiðinu var að brúa bilið á milli foreldra barna af erlendum uppruna og starfsmanna leikskólans. Tungumál geta sett ákveðnar hömlur sem gera það að verkum að okkur finnst erfiðara að veita eða leita eftir upplýsingum sem getur komið sér illa fyrir foreldra, kennara og börn. Okkur fannst afar mikilvægt að losa um þessar hömlur til að auðvelda foreldrum af erlendum uppruna að leita til starfsmanna leikskólans og eins fyrir kennara að leita til foreldra erlendra barna.

Á námskeiðinu kynntum við það sem samfélagið okkar hefur uppá að bjóða, bæði fyrir börn og fullorðna. Þátttakendur voru hvattir til þess að nýta það sem er í boði í samfélaginu okkar í sínum tómstundum s.s. íþróttir, kóra og taka þátt í öðru félagsstarfi. Auk þess var lagt upp með einfalda íslenskukennslu en aðalmarkmiðið var að kynnast og hafa gaman saman.

Íslenskukennslan var byggð upp með því að leika sér með orðin, til dæmis að leika eða teikna hlutinn og þurftu þátttakendur að svara með íslenska orðinu sem við átti. Þátttakendur lásu stuttar setningar og pöruðu saman eða fóru eftir fyrrimælum sem stóðu á miðum. Einnig var ýmislegt fleira gert, til dæmis var farið í Íþróttamiðstöðina þar sem börnin fóru í Litla íþróttaskólann með sínum jafnöldrum, við bökuðum íslenskar pönnukökur og vöfflur eftir íslenskri uppskrift og í lokin héldum við menningarkvöld þar sem allir komu með mat frá sínu heimalandi.

Það sem við komumst að í gegnum þetta ferli er að fólk af erlendum uppruna verður fyrir fordómum. Flest þeirra hafa áhuga og viljann til að taka þátt í samfélaginu en finnst erfitt að taka af skarið þar sem tungumálaörðuleikar setja oft strik í reikninginn. Við teljum afar mikilvægt að hver og einn líti eigin barm og reyni eftir fremsta megni að aðstoða nýbúa þannig að þeim finnist þau velkomin í okkar frábæra samfélag. Fjölmenning bætir samfélagið og teljum við það hjálpa þeim sem eru að læra íslensku að vera með íslendingum í leik og starfi og nota íslenskuna. Stefnt er að því að halda þetta námskeið á haustin að minnsta kosti annað hvert ár og vonumst við til þess að sjá sem flesta.

Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir og Elsa Þorgilsdóttir Leikskólanum Bergheimum.