Lýsismálið: Ölfus setur fram sínar forsendur

olfus_lysi01Ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag starfsemi Lýsis skal liggja fyrir eigi síðan en í lok mars árið 2017 eða eftir um 9 mánuði. Þetta kemur fram í drögum að samningi sem lagður var fram á bæjarstjórnarfundi Sveitarfélagsins Ölfuss sem haldinn var 23. júní sl.

Í drögunum setur bæjarstjórn fram fjórar forsendur og var forseta bæjarstjórnar og bæjarstjóra falið að ganga til samninga við Lýsi. Forsendurnar eru eftirfarandi:

Ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag starfsemi Lýsis í Þorlákshöfn skal liggja fyrir eigi síðar en í lok fyrsta ársfjórðungs árið 2017, þ.e. fyrir lok mars. Þá skal liggja fyrir hvort Lýsi hyggist flytja þurrkstarfsemi sína á þegar skipulagt svæði vestan Þorlákshafnar eða hvort verksmiðjunni verði lokað án frekari uppbyggingar í Sveitarfélaginu Ölfusi.

Ef ákvörðun verður tekin af hálfu Lýsis um að hætta fiskþurrkunarstarfsemi í Sveitarfélaginu Ölfusi eða ákvörðun um flutning liggur ekki fyrir skv. lið a hér að ofan skal loka fiskþurrkunarverksmiðjunni að Unubakka 26 í Þorlákshöfn eigi síðar en fyrir lok maí 2017.

Ef ákvörðun verður tekin um uppbyggingu nýrrar verksmiðju á skipulögðu iðnaðarsvæði vestan Þorlákshafnar mun fiskþurrkunarstarfsemi að Unubakka 26 í Þorlákshöfn lögð niður eigi síðar en í lok annars ársfjórðungs 2018, þ.e. fyrir lok júní þess árs. Undirbúningur flutnings skal hefjast þegar í stað og Lýsi skal sýna fram á trúverðuga áætlun um flutning fram til þess tíma.

Á þeim tíma sem fiskþurrkunarverksmiðjan að Unubakka 26 í Þorlákshöfn er starfandi verður heimilt að framleiða í henni úr allt að 40 tonnum af hráefni á sólarhring. Engin þurrkstarfsemi mun fara fram í verksmiðjunni í júlí og ágúst árin 2016 og 2017.

Drögin voru samþykkt með 6 atkvæðum á móti einu en Guðmundur Oddgeirsson kaus á móti samningnum og setti fram eftirfarandi bókun:

Guðmundur OddgeirssonLýsi hf hefur haft um 7 ár til að klára sín mál. Í ljósi sögunnar er þessi samningur, að mínu mati, engin trygging er fyrir því að Lýsi hf muni standa við hann. Íbúar Þorlákshafnar eiga ekki að þurfa að fórna rétti sínum til loftgæða inn á heimilum sínum og heftingu á atvinnuuppbyggingu um ókomin ár.

Starfsleyfisskilyrðin sem tilgreind eru í auglýsingu Heilbrigðiseftirlits Suðurlands dagsettri 1/6/2016 eru vita gagnslaus eins og reynslan sýnir. Sem dæmi þá eru starfsleyfisskilyrðin 4.6, 4.7 og 4.8 með öllu ómælanleg og óframkvæmanleg og því á ekki að endurnýja starfsleyfið á núverandi stað sem er í mikilli nálægð við heimili og hin ýmsu fyrirtæki í Þorlákshöfn. Svo má nefna að auglýst starfsleyfisskilyrði ganga skemur en úrskurður umhverfisráðherra, Kolbrúnar Halldórsdóttur, frá 8. apríl 2009 segir til um.
4.6 Starfsleyfishafi skal koma í veg fyrir eða draga úr loftmengun frá athafnasvæði fyrirtækisins eftir því sem kostur er og viðhalda þannig þeim gæðum sem felast í hreinu og ómenguðu lofti. Fyrirtækið skal sjá svo um að reykur, ryk og lofttegundir sem eru hættulegar, daunillar eða lyktarmiklar, valdi ekki óþægindum í nánasta umhverfi.
4.7 Takmarka skal lyktarmengun frá starfseminni eins og kostur er með því að vinna ferskt hráefni og með búnaði sem eyðir mengandi efnum úr útblæstri. Afsog frá lyktar- og efnauppsprettum skal kælt, hreinsað með óson í þvotta- og þéttiturni og leitt út í gegnum reykháf sem er ekki lægri en ein húshæð miðað við gólfflöt verksmiðjuhúss og nærliggjandi húsa. Hraði útblásturslofts skal ekki vera minni en 20 m/s til þess að koma í veg fyrir niðurdrátt.
4.8 Loftræstingu frá vinnslusvæði skal þannig háttað að hún valdi ekki óþægindum í umhverfinu vegna rykmengunar, lyktarmengunar eða hávaða. Tryggja skal með þrýstingsstýringu að að allt loft frá vinnslusvæðum fari í lofthreinsikerfi.