Stækkun Níunnar

Til stendur að byggja a.m.k. fjórar nýjar íbúðir við Níuna og að þær verði afhentar í lok sumar 2020. Þetta kemur fram í fundargerð Öldungaráðs Ölfuss frá 13. september sl. sem lögð var fram á síðasta bæjarstjórnarfundi. Um er að ræða fyrsta áfanga við stækkun Níunnar en til stendur að byggja í framhaldi fleiri íbúðir.

Fram kemur að verkefnið hafi tafist þar sem ekki hafa borist svör frá Íbúðalánasjóði við styrkumsókn sveitarfélagsins en tíminn hafi þó verið nýttur vel í að ljúka þeim þáttum framkvæmdarinnar sem hægt er að undirbúa á umsóknartíma. Þannig liggja fyrir lánsloforð frá Lánasjóði sveitarfélaga, grunnhönnun er tilbúin ásamt rekstraráætlun og fleiri gögnum.

Samkvæmt upplýsingum Hafnarfrétta stendur einnig til að breyta skipulagi á Níunni þannig að dagdvölin færist til og við það bætist þá fimmta íbúðin við.

Í fundargerðinni kemur fram að ekkert ætti því að standa í vegi fyrir framkvæmdum um leið og svör berast frá Íbúðalánasjóði. Einnig kemur fram að til standi að fara í alútboð á framkvæmd í byrjun árs 2020, að framkvæmdir hefjist í lok febrúar og að íbúðirnar verði afhentar í lok sumars sama ár.