Góðar líkur eru á að fjárfesting í hafnarbótum í Þorlákshöfn skili sér til þjóðarbúsins á tiltölulega fáum árum vegna verðmætaaukningar og aukinnar framleiðslu í ferskvöru en þetta kemur fram í skýrslunni „Ferjuhöfnin Þorlákshöfn – Efnahagsleg og samfélagsleg áhrif af uppbyggingu Þorlákshafnar“ sem unnin var fyrir Sveitarfélagið Ölfus og Sóknaráætlun Suðurlands af RR ráðgjöf.
Nú þegar siglir Smyril Line vikulega milli Þorlákshafnar og Rotterdam á skipinu Mykines og innan fárra daga bætist systurskip Mykinsesins, Akranes, við og tvöfaldast flutningsgetan um höfnina þar með. Akranesið mun sigla vikulega til Danmerkur. Þessar ferjusiglingar Smyril Line hafa nú þegar stuðlað að nýjum viðskiptatækifærum og opnað nýja markaði, sérstaklega fyrir útflutning á ferskum afurðum þar sem afhendingaröryggi og flutningstími skiptir höfuðmáli.
Siglingar um Þorlákshöfn hafa umtalverða kosti umfram siglingar úr Faxaflóa. Helsti kostur þeirra eru um sólarhringsstytting á siglingaleiðinni til og frá Evrópu og þar með talverður fjárhagslegur ávinningur, aukinn sveigjanleiki og verulega lægra kolefnisspor.
Sveitarfélagið Ölfus hefur nú þegar lagt drög að framkvæmdum sem tryggja myndu næsta vaxtarskref hafnarinnar. Áætlaður heildarkostnaður við slíkar framkvæmdir eru 3,5-3,7 milljarðar króna. Hlutur ríkissjóðs er áætlaður um 2,2 milljarðar og Hafnarsjóðs Þorlákshafnar um 1,3 milljarðar króna. Í samgönguáætlun fyrir árin 2019-2021 er gert ráð fyrir um 330 milljónum til verkefnisins og í fjárhagsáætlun Þorlákshafnar er gert ráð fyrir um 460 milljónum í framkvæmdirnar á árunum 2019-2021.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, telur mikilvægt að Íslendingar gleymi því ekki að undirstaða velferðar eru innviðir sem stuðla að verðmætasköpun og segir hann að í Ölfusi séu mikil tækifæri og að vöxtur Þorlákshafnar geti haft áhrif um allt land.
„Hér í Ölfusi eru gríðarleg tækifæri til verðmætasköpunar og þá sérstaklega á forsendum orkuháðs iðnaðar og umhverfisvænnar matvælaframleiðslu svo sem í fiskeldi á landi, ylrækt og fleira. Vöxtur hafnarinnar í Þorlákshöfn með áherslu á hlutverk hennar sem ferjuhafnar bæði fyrir vörur og fólk getur haft víðtæk áhrif um allt land. Vandséð er hversvegna ríkið ætti ekki að setja þetta verkefni í forgang enda ljóst að aukin verðmætasköpun myndi á mjög skömmum tíma skila þjóðarbúinu til baka stofnkostnaði og efnahagslegum ábata til framtíðar.“