Fyrsta skóflustunga að tólf íbúða fjölbýlishúsi í Þorlákshöfn var tekin fimmtudaginn 6. febrúar síðastliðinn. Fjölbýlishúsið er á vegum Bjargs íbúðafélags sem er sjálfseignastofnun á vegum ASÍ og BSRB og er félagið rekið án hagnaðarsjónarmiða.
Um er að ræða tveggja hæða fjölbýlishús úr timbri með tólf íbúðum sem leigðar verða út á kostnaðarverði og leigufjárhæðin verður ákveðin þannig að reksturinn verðir sjálfbær.
Sextíu manns hafa sótt um íbúðir í húsnæðinu en lokað hefur verið fyrir umsóknir í bili. Íbúðirnar verða allt frá 36,5 fermetrum og upp í 89,3 fermetra fjögurra herbergja íbúðir. Alls verða þetta ein stúdíóíbúð, fimm tveggja herbergja íbúðir, fjórar þriggja herbergja og tvær fjögurra herbergja.