Kæru íbúar í Þorlákshöfn og Ölfusi,
Við þekkjum öll þá stöðu sem nú er upp. Það ríkir almannavarnarástand vegna heimfaraldurs COVID-19 veirunnar. Allir leggjast því á eitt við að tryggja öryggi samhliða því að gangverk samfélagsins virki, svo vel sem hægt er.
Stjórnendur og starfsfólk sveitarfélagsins hafa nú þegar unnið þrekvirki við að endurskoða allt okkar starf og hefur nú undirbúið fyrstu viðbrögð við samkomubanninu sem tók gildi á miðnætti í gær. Sem bæjarstjóri og íbúi í sveitarfélaginu er ég gríðarlega þakklátur fyrir óeigingjarna framgöngu starfsmanna okkar og stoltur yfir þeirri samheldni og einhug sem ríkir um að leysa verkefni næstu vikna af festu, ábyrgð og yfirvegun.
Þrátt fyrir styrk starfsmanna og okkar og einhug er ljóst að starfsemi og þjónusta sveitarfélagsins verður með breyttu sniði næstu fjórar vikurnar. Allt skipulag skólahalds sveitarfélagsins miðast að því að fara í einu og öllu eftir fyrirmælum yfirvalda um samkomubann. Breytingar á starfsemi sveitarfélagsins geta skollið á með stuttum fyrirvara og verða þá tilkynntar á heimasíðu sveitarfélagsins eða beint frá þeim stofnunum eða einingum sem við á.
Um leið og við heitum því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja íbúum þjónustu innan þess ramma sem okkur eru sniðnir viljum við hvetja íbúa til árverkni. Við erum öll almannavarnir. Við hvetjum því íbúa til að leita almennra upplýsinga um faraldurinn og viðbrögð við honum inni á www.covid.is – þar er að finna allar nauðsynlegar upplýsingar sem gilda næstu fjórar vikurnar.
Helstu ákvarðanir sem teknar hafa verið hjá Sveitarfélaginu Ölfusi eru eftirfarandi:
*Grunnskólinn í Þorlákshöfn verður opinn. Ákveðið hefur verið að tvísetja skólann þannig að yngri nemendur verða í skólanum fyrir hádegi og eldri nemendur eftir hádegi. Hádegismatur verður aðeins fyrir nemendur í 1. – 3. bekk.
- Nemendur í 1. – 3. bekk verða í skólanum frá kl. 8:00 -13:00 og þiggja hádegismat í skólanum
- Nemendur í 4. – 5. bekk verða í skólanum frá kl. 8:00 –12:30 og fara heim í mat.
- Nemendur í 6. – 10. bekk verða í skólanum frá kl. 13:00 –16:00
*Frístund verður starfandi fyrir yngstu börnin kl. 13:00-17:00 en með fjöldatakmörkunum. Við biðlum til þeirra foreldrar sem geta haft börn sín heima að verða við því og láta starfsmenn í Frístund vita af því.
*Velferðaþjónusta verður takmörkuð. Almennt gildir að áhersla er lögð á samskipti í gegnum síma. Ekki er hægt að koma í viðtal á skrifstofum meðan þetta ástand varir. Bent er á símanúmerið 480-3800
*Barnavernd – Tilkynningum um barnavernd skal beina á netfangið „barnavernd@arnesthing.is“ eða í síma 480-3800. Utan hefðbundins dagvinnutíma er hringt í síma 112 ef tilkynning er þess eðlis að bregðast þurfi við henni tafarlaust.
*Heimaþjónustu verður sinnt eins og mögulegt er á hverjum tíma en fyrirséð að einhver röskun verður á. Nánari upplýsingar veitir Ásrún í síma 480-3800. (Netfang asrun@olfus.is )
*Starfsemi í þjónustukjarna eldri borgara að Egilsbraut 9 er að mestu með hefðbundnum hætti. Daggæsla er þó skert og heimsóknum mjög stillt í hóf. Öllu félagsstarfi eldri borgara á „9unni“ hefur verið frestað.
*Fjárhagsaðstoð og húsnæðisstuðningi verður sinnt að svo miklu sem mögulegt er í gegnum síma og önnur fjarskipti. Vinsamlega hringið í síma 480-3800 eða sendið tölvupóst á netfangið eyrun@olfus.is
*Starfsemi Viss og Sambýlis við Egilsbraut eru með hefðbundnum hætti. Heimsóknir eru þó verulega takmarkaðar. Í málefnum fatlaðs fólks er áhersla lögð á samskipti í gegnum síma eða tölvupóst. Sími 483-4000 og netfang arna@arnesthing.is
*Sundlaug og íþróttaaðstaða verður opin innan þess ramma sem lagt er upp með hvað varðar fjöldatakmarkanir og fjarlægðarmörk. Tekið er undir tilmæli ÍSÍ um að að fella niður skipulagt starf fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri að minnsta kosti út þessa viku.
*Leikskólinn Bergheimar verður opinn á hefðbundnum tíma næstu fjórar vikur eftir því sem aðstæður leyfa, en starfsemi og leikskólahaldið sjálft verður með öðru sniði sem kynnt verður fyrir foreldrum á næstu dögum. Á morgun þriðjudaginn 17. mars verður leikskólinn lokaður vegna verkfalls Eflingar. Búið er að sækja um undanþágu frá verkfalli vegna þess almannavarnar ástands sem uppi er. Nánari upplýsingar verða sendar eftir því sem þær berast.
*Starfsemi á bæjarskrifstofunum tekur mið af stöðu mála og því takmörkuð. Reynt er að aðskilja starfsmenn frá staðgenglum og gesta komu stillt í hóf.
Ágætu bæjarbúar, nú fer í hönd tími þar sem við þurfum öll að standa saman og sýna samfélagslega ábyrgð í því hvernig við heftum covid-19 faraldurinn og tryggjum velferð þeirra sem veikastir eru fyrir. Á sama tíma minnumst við þess að bros, umburðarlyndi og auðmýkt eru góðar varnir til viðbótar við handsápu og sótthreinsi.
Með vinarþeli
Elliði Vignisson
bæjarstjóri