Sveitarfélagið Ölfus reynir að tryggja sem mesta þjónustu

Sveitarfélög um allt land vinna nú hörðum höndum að því að laga starfsemi sína að þeim aðstæðum sem uppi eru vegna þess almannavarnarástands sem nú ríkir vegna alheimsfaralds COVID-19 veirunnar.  Sveitarfélagið Ölfus er þar engin undantekning.  Elliði Vignisson, bæjarstjóri, segir að hlutverk þeirra sé algerlega skýrt, að tryggja órofinn rekstur sem víðast þótt sannarlega verði þjónustuþegar varir við breytingar.  „Við reynum að halda sem mestri þjónustu úti en virðum þó að sjálfsögðu tilmæli og tilskipunum landlæknis og annarra til þess bærra yfirvalda“.

Að sögn Elliða gengur undirbúningur vel miðað við aðstæður. „Við höfum náttúrulega verið að vinna að undirbúningi vegna þessa frá því á fyrstu dögum þessa árs.  Við eigum því tilbúnar ákveðnar aðgerðaáætlanir sem við getum hrint í framkvæmd eftir því sem tímanum fram vindur.  Á föstudaginn funduðum við með öllum yfirmönnum stofnana hjá okkur og ef ég á að vera alveg einlægur þá hreinlega hlýnaði mér um hjartarætur að finna hvað starfsmenn okkar eru til í þetta verkefni.  Allir eru tilbúnir til að leggja á sig gríðarlega mikla vinnu til að tryggja nauðsynlega þjónustu.  Það er ekki sjálfgefið“.

Elliði segir að enn sem komið er sé staðan vel viðráðanleg hjá Sveitarfélaginu Ölfusi.  „Mér vitanlega er staðan nú sú að það eru 161 einstaklingur hér á landi með staðfest smit og 1512 í sóttkví.  Af þessu fólki er 152 smitaðir á höfuðborgarsvæðinu, 8 á Suðurlandi og 1 á Suðurnesjum og (1 óstaðsettur).  Ég þekki ekki til þess að nokkurt staðfest smit hafi komið upp hér í Þorlákshöfn.  Við höfðum fregnir af því að ung kona hér í bæ hafi verið í sóttkví núna fyrir helgi með flensueinkenni.  Það var ánægjulegt að heyra að hún reyndist vera með hefðbundna flensu en ekki COVID-19.“  Elliði segir athyglisvert og í raun mikilvægt að horfa til þess að veiran virðist herja með allt öðrum og sennilega vægari hætti að börnum en fullorðnum.  „Þeir sem smitist eru helst þeir sem eru á aldrinum 40 til 70 ára og þar af flestir á aldrinum 40 til 49 ára.  Innan við 2% eru börn yngri en 9 ára.  Það er ef til vill eitthvað sem við getum haft bak við eyrað í okkar aðgerðum.“

 Hvað aðgerðir varðar segir Elliði að stofnanir séu vissulega ólíkar en á móti kemur þá eru forstöðumenn og stjórnendur hver fyrir sig sérfræðingur á sínu sviði.  „Það liggur því eðli málsins samkvæmt hjá hverjum og einum yfirmanni að aðlaga áætlanir okkar að sinni stofnun.  Þetta er misflókið og til að mynda ógerningur að aðlaga skólahald að þessum veruleika nema með því að taka einn dag í þann undirbúning og þess vegna verður starfsdagur í leik- og grunnskólum á mánudag.  Við sem leiðum þetta starf leggjum upp með að allar okkar þjónustustofnanir haldi starfsemi áfram innan þess ramma sem sóttvarnarlæknir/almannavarnir leggja.  Hver og einn forstöðumaður tekur síðan ákvarðanir innan þessa ramma og vinnur með sínum þjónustuþegum að útfærslu. Þannig eru bæði leik- og grunnskóli með starfsdaga á morgun til að stilla þjónustuna af miðað við aðstæður.  Íþrótta- og tómstundafulltrúi hefur boðað til fundar með íþróttafélögum til að samræma aðgerðir og þar fram eftir götunum.  Upplýsingar berast síðan frá stofnunum til þjónustuþega svo hratt sem mögulegt er.“

Elliði segist vilja ítreka þakklæti sitt til starfsmanna sveitarfélagsins sem nú leggjast allir á eitt við að tryggja sem minnsta röskun við fordæmalausar aðstæður.  „Það er ríkt samfélag sem á starfsmenn eins og við eigum“ segir bæjarstjórinn þakklátur.