Ásgeir Kristján Guðmundsson og eiginkona hans Ásta Kristín Ástráðsdóttir hafa tekið við rekstri bakarísins Café Sól í Þorlákshöfn af Þresti og Láru. Hafnarfréttir slógu á þráðinn til Ásgeirs af þessu tilefni.
„Við fluttum fyrir þremur árum hingað í Þorlákshöfn og konan mín er kennari í grunnskólanum hér. Ég misti vinnuna í febrúar út frá Covid-19 ástandinu, svo barst mér til eyrna að Þröstur væri að íhuga að selja bakaríið og hafði ég samband við hann. Núna um mánaðarmótin tókum við við Café Sól og gerðum breytingar á salnum og erum smátt og smátt að koma með nýjungar,“ segir Ásgeir.
Ásgeir segir móttökur Þorlákshafnarbúa ótrúlega góðar. „Síðasta vika var fyrsta vikan hjá okkur og getum við ekki sagt annað en að móttökur Þorlákshafnarbúa hafa farið fram úr okkar björtustu vonum.“ Aðspurður hvort þau hafi ekkert verið hikandi að láta vaða í svona rekstur í miðjum heimsfaraldri sagði Ásgeir; „Það er náttúrulega svolítil klikkun að kaupa svona rekstur í því ástandi sem við lifum í núna. En við höfum alltaf verið bjartsýnis fólk,“ segir hann.
Ásgeir hélt úti skemmtilegu verkefni á Facebook síðu sinni sem hann kallaði „Lag á dag“ en þar tók hann upp lag og birti á Facebook daglega þangað til hann myndi finna sér vinnu. Þá þótti blaðamanni lag að spyrja hvort „Lag á dag“ væri þá búið? „Lag á dag er hér með lokið en það er ekki lokum fyrir það skotið að ég verði reglulega með eitthvað á Facebook síðuni minni. Í augnablikinu fara allir mínir kraftar í að gera bakaríið eins og við viljum hafa það. Þegar fram líða stundir langar okkur að skoða það að lengja opnunartímann og vera kannski með meiri svona kaffihúsastemningu seinnipartinn og kannski frameftir kvöldi. Það er enn þá bara draumur og ef af því verður þá verður nú gítarinn kannski með í för. En þetta er eitthvað sem kemur bara í ljós með tímanum,“ segir Ásgeir að lokum en Hafnarfréttir óska Ásgeiri og Ástu til hamingju með reksturinn.