Telur að vafi leiki á því hvort héraðsskjalasafnið sé fært til að gegna sínu lögboðna hlutverki

Gestur Þór Kristjánsson, forseti bæjarstjórnar Ölfuss og stjórnarmaður í Héraðsskjalasafni Árnesinga, telur að staða húsnæðismála safnsins sé óviðunandi og vafi leiki nú á því hvort safnið geti sinnt sínu lögboðna hlutverki hvað þá að það rísi undir faglegum metnaði stjórnar og starfsmanna.

Stjórn safnsins ræddi þessi mál á fundi sínum 17. september síðastliðinn. Í fundargerð segir að ástand húsnæðismála sé með þeim hætti að ekki verður lengur við unað. Hillupláss er uppurið og skjöl nú geymd á vörubrettum í skjalageymslu. Ekki er hægt að draga frekar ákvörðun um framtíðarhúsnæði skjalasafnsins. Þá er ekki hægt að horfa fram hjá bráðavanda safnsins í ljósi þess að skjalageymslur eru fullar.

Gestur Þór sat umræddan fund og bókaði hann meðal annars að Sveitarfélagið Ölfus hafi frá fyrstu stigum boðið fram lóð, að kostnaðarlausu fyrir héraðsskjalasafnið. Þá var sveitarfélagið einnig búið að bjóða fram gjaldfrjálsa aðkomu hönnun og fl. Hefði sú leið verið farin væri nú þegar risin glæsileg aðstaða og flutningur nú þegar að hefjast. Í bókuninni segir ennfremur: „Þetta boð stendur enn.“

Gestur hvatti einnig til þess að án tafar verði tekin ákvörðun um að þiggja boð Sveitarfélagsins Ölfuss um lóð undir nýtt héraðsskjalasafn enda væri slæmt fyrir stjórn að verða vitni að því að vafi leiki á hvort safninu sé fært að gegna sínu lögboðna hlutverki. Í bókun Gests sagði einnig að hægt væri að hefja hönnun tafarlaust og verklegar framkvæmdir eigi síðar en á fyrstu dögum nýs árs að undangengnu lögboðnu útboði. Þannig væri mögulega hægt að hefja þar starfsemi síðla árs 2021.

Nú standa öll spjót á stjórn Héraðsskjalasafnsins og ljóst að við svo búið verður ekki lifað. Hafnarfréttir munu fylgjast nánar með framvindu þessa máls.