Þriggja metra háir baklýstir stafir sem mynda orðið „ÖLFUS“ munu prýða veglegt merki sem verið er að byggja við sveitarfélagamörk Ölfuss og Kópavogs í vegkantinum nálægt Litlu kaffistofunni. Stefnt er að því að merkið verði tilbúið í febrúar eða mars ef veður leyfir.
Í fjarhagsáætlun Sveitarfélagsins Ölfus var upphaflega gert ráð fyrir 10 milljónum króna í verkið en allt stefnir í að endanlegur kostnaður gæti orðið um 12 milljónir króna að sögn Sigmars B. Árnasonar sviðsstjóra framkvæmda- og umhverfissviðs Ölfuss.
„Sá munur liggur aðallega í uppbyggingu undirstöðu og stærð/þykkt veggs og jarðvinnu, en vegna staðsetningar hans þá þurfti að hafa það allt stærra og meira. Einnig var aukakostnaður vegna rafmagns,“ segir Sigmar í samtali við Hafnarfréttir.
Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss segir hugmyndina bakvið merkið víðþekkt. „Flestir þekkja til að mynda myndalega merkingu Reykjanesbæjar og Grindavíkur á sínum sveitarfélagamörkum. Um þessa leið fara hundruðir þúsunda farþega á hverju ári og eðlilegt að við minnum á tilveru okkar gagnvart þeim. Með þessari framkvæmd viljum við minna á stærð og styrk okkar magnaða sveitarfélags og ramma náttúrugæði og einstakt mannlíf dálítið meira inn en gert hefur verið.“