„Mikilvægt að húsnæðið rúmi þá þjónustu sem okkur er gert að veita“

Eins og Hafnarfréttir greindu frá fyrr í vikunni þá mun Heilsugæslan í Þorlákshöfn opna aftur mánudaginn 15. nóvember næstkomandi en frá 1. mars á þessu ári hafa íbúar þurft að sækja sér læknisþjónustu til Hveragerðis.

Búið er að taka allt í gegn í húsnæðinu og samkvæmt Díönu Óskarsdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, var húsnæðið orðið gamalt og „hélt það illa utan um þá þjónustu sem er veitt í dag og því voru þessar endurbætur á húsnæðinu löngu tímabærar.“

„Íbúum fer fjölgandi á svæðinu og því er mikilvægt að húsnæðið rúmi þá þjónustu sem okkur er gert að veita. Í beytingunum hefur verið lögð áhersla á að skipulag húsnæðisins verð með þeim hætti að þjónusta við notendur og rekstur stöðvarinnar verði skilvirkur og henti vel fyrir teymisvinnu starfsmanna. Það er von mín að nýuppgert húsnæði heilsugæslunnar falli vel að starfseminni og að vinnuaðstaða og aðbúnaður nýtist starfsfólki og skjólstæðinum sem best,“ sagði Díana í samtali við Hafnarfréttir.

Hér að neðan má sjá nýjar myndir úr heilsugæslunni en framkvæmdirnar eru á lokametrunum.