Bæjarráð telur Íslandspóst fara með rangt mál

Bæjarráð Ölfuss harmar ákvörðun Íslandspósts og gerir alvarlegar athugasemdir við framgögnu fyrirtækisins en það ákvað nýverið að leggja niður mannaða starfsstöð í sveitarfélaginu. Að mati ráðsins hefur fyrirtækið hreinlega gengið fram með rangindi í þeim eina sjáanlega tilgangi að skerða einokunarþjónustu í vaxandi samfélagi til að hagræða í rekstri.

Í bókun bæjarráðs segir að það sé rangt að ekki hafi verið gert ráð fyrir áframhaldandi þjónustu Íslandspósts í breytingum Landsbankans en allar þær teikningar sem kynntar hafa verið fyrir fulltrúum sveitarfélagsins sýna að frá upphafi gerði Landsbankinn ráð fyrir því við hönnun á endurbættri aðstöðu að þar yrði áfram mögulegt að veita póstþjónustu.

Bæjarráð furðar sig á því að ekki skyldi vera rætt við sveitarfélagið um þessa breytingu sem skerðir innviði samfélagsins umfram það sem hægt er að sætta sig við. Þvert á móti máttu kjörnir fulltrúar sveitarfélagsins lesa um breytinguna á samfélagsmiðlum löngu eftir að ákvörðun hafði verið tekin. Þar með voru þeir útilokaðir frá því að vinna að betri lausn og verja hagsmuni bæjarbúa.

Þá gerir bæjarráð alvalegar athugasemdir við þá staðreynd að Íslandspóstur hafi nú þegar skert alþjónustu sína án nokkurs samráðs við sveitarfélagið eða svo mikið sem að tilkynna það formlega með lágmarks fyrirvara. Slíkt vekur eðlilega upp spurningar um það hvort Íslandspóstur hafi sniðgengið gróflega þá skyldu sem þeir bera skv. 5. mgr. reglna nr. 504/2003, þar sem segir: „Íslandspósti ber að tilkynna lokun á afgreiðslustað til Póst- og fjarskiptastofnunar með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara. Breytingar á rekstrarfyrirkomulagi skal tilkynna með eins mánaða fyrirvara.“

„Bæjarráð hvetur til þess að Póst- og fjarskiptastofnun/Byggðastofnun hafni umsókn um lokun afgreiðslustaðar í Þorlákshöfn og sýni þar með virðingu fyrir mikilvægi þeirrar alþjónustu sem Íslandspósti er falið að sinna. Bæjarráð ítrekar ennfremur vilja sinn til að vinna með Íslandspósti að leiðum til að viðhalda tilveru afgreiðslustaðar í Þorlákshöfn ef ekki er lengur vilji til samstarfs milli Landsbankans og Íslandspósts.“