Þórsarar unnu mjög mikilvægan 92-83 sigur á Stjörnunni í Icelandic Glacial höllinni fyrr í kvöld. Með sigrinunum eru Þórsarar komnir upp fyrir Stjörnuna í 2. sæti deildarinnar og með betri innbyrðis stöðu á Stjörnuna þar sem Þórsarar unnu báða leikina gegn þeim.
Stjörnumenn voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu með 13 stigum þegar gengið var til búningsklefa í hálfleik.
Þórsarar komu inn með gífurlegum krafti í seinni hálfleik og var varnaleikurinn til fyrirmyndar. Þá voru skotin einnig að rata rétta leið annað en var uppi á teningnum í fyrri hálfleik.
Þetta var sannkallaður liðsheildarsigur Þórsara í kvöld þar sem stigin frá bekknum náðu hátt í það sem byrjunarliðið skoraði. Þar fóru fremstir í flokki Ragnar Örn með 15 stig, Halldór Garðar 12 og Emil Karel bætti við 10 stigum. Samtals skoraði varamannabekkur Þórsara 43 stig á móti 54 stigum byrjunarliðsins.
Callum Lawson átti mjög góðan leik og skoraði 21 stig og var Adomas Drungilas einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu en hann skoraði 10 stig, tók 10 fráköst og gaf 9 stoðsendingar.
Næsti leikur Þórsara er á mánudaginn 22. mars þegar þeir sækja ÍR-inga heim í Breiðholtið.