Hún á afmæli í ár, hún á afmæli í ár…..

Kæru íbúar

Mig langar að byrja á því að óska okkur öllum innilega til hamingju með 70 ára afmæli þéttbýlis í Höfninni okkar. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að það séu ekki nema 70 ár síðan fyrstu húsin risu hér við B-götu og virðist ekki vera neitt lát á þeim vexti sem er gleðileg þróun. Vil ég meina að strax á þeim tíma hafi grunnurinn verið lagður að einkennum okkar Þorlákshafnarbúa, samheldni og dugnaði. Menningarverðmæti okkar liggja akkúrat í þessari sögu og ber okkur skylda til þess að varðveita hana og fræða komandi kynslóðir og hvað er betra en að nýta stórafmæli til þess?

Sveitarstjórnin er stórhuga í því tilliti og hefur því skipað afmælisnefnd til að sjá um og skipuleggja stórafmælið. í þessari nefnd situr undirritaður ásamt Hrafnhildi Hlín Hjartardóttur og Rúnari Gunnarssyni. Okkur til halds og traust er Ása Berglind Hjálmarsdóttir sem hefur verið ráðin verkefnastjóri. Þessa dagana erum við að undirbúa dagskrá sem mun standa yfir frá maí og út árið 2021. Það er ótrúlegt að skoða lista yfir þau félög sem eru starfandi hér í okkar bæjarfélagi og er ég nokkuð viss um að ef við sameinum krafta okkar í anda dugnaðar og samheldni eins og okkur er einum lagið á engum eftir að leiðast.

Já þetta verður langt afmæli og nóg um að vera en það væri bjartsýni að halda það að við fjögur getum komið öllu því til skila sem Þorlákshöfn hefur að geyma eða hvernig íbúar vilja halda upp á slíkt afmæli. Bærinn hefur þróast, hér eru margar kynslóðir og íbúar af fjölbreyttum uppruna samankomnir sem skapa þetta heillandi bæjarfélag. Því leitum við eftir tillögum frá ykkur kæru íbúar og biðjum ykkur að svara hér stuttri könnum í þeirri von að þær geti nýst okkur í frekari úrvinnslu. Sömuleiðis munum við hafa samband á næstu dögum við þau félagasamtök sem eru hér starfandi.

En ekki óttast, Hamingjan við hafið verður á sínum stað 😊

Hér er svo könnunin >

Virðingarfyllst
Róbert Dan Bergmundsson
Formaður 70 ára afmælisnefndar.