Elliði Vignisson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfuss, setti inn athyglisverðan pistil á Facebook í morgun. Þar ræddi hann svokallaða Borgarlínu og benti á að svo væri sem hagsmunir þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins væru ekki ræddir í tengslum við þá miklu framkvæmd.
„Það búa um 50 þúsund manns á svæðinu frá Grindavík, út að Árborg og upp að Akranesi. Þar við bætast þarfir íbúa á landsbyggðinni almennt. Þetta fólk notar almennt fjölskyldubílinn til samgangna. Er víst að það vilji keyra að Rauðavatni, Mosfellsbæ eða Hafnarfirði og skilja bílinn þar eftir til að taka strætó restina af leiðinni?“ sagði í pistli Elliða.
Í viðtali við Hafnarfréttir sagði Elliði að mikilvægt væri að gleyma ekki þessum hagsmunum. „Við þekkjum það vel hér í kraganum í kringum borgina hversu mikilvægar greiðar samgöngur innan borgar eru. Mörg okkar keyra daglega til og frá vinnu í Reykjavík. Fólk sækir þangað nám, læknaþjónustu og svo margt fleira. Í mínum huga er það ljóst að það fylgir því ábyrgð að vera höfuðborg. Sú ábyrgð er ekki hvað síst að minnast þess að borgin er byggð upp utan um þjónustunet allra landsmanna. Þar byggðum við saman upp stjórnsýsluna, heilbrigðisþjónustuna, menntakerfið, menningarlífið og svo margt fleira. Við þurfum að tryggja greiða leið allra landsmanna að þessum nauðsynjum.“ Elliði segir einnig að samgöngur séu spurning um lífsgæði: „Við Íslendingar liggjum nú fast á árunum við það að stytta vinnuvikuna. Þannig viljum við auka lífsgæði og reyna til dæmis að tryggja fólki aukinn tíma með börnum sínum, vinum og fleira. Það er til lítils róið ef sá tími ásamt enn meiri tíma á að fara í að bíða eftir strætó eða sitja fastur á rauðu ljósi vegna vanhugsaðra framkvæmda í Reykjavík“.
Elliði minnir einnig á að verkefnið verði að stóru leyti kostað af ríkinu. „Kostnaðaráætlun vegna heildarframkvæmdarinnar hljóðar upp á 63 til 70 milljarða. Bara fyrsti áfanginn upp á 13 kílómetra hljóðar upp á 17 milljarða. Það er því ekkert óeðlilegt að við skattgreiðendur höfum á þessu skoðun.“
Aðspurður um það hvort ekki sé eðlilegt að Reykjavíkurborg líti til umhverfisvænna samgangna líkt og aðrar borgir segir hann auðvelt að bera virðingu fyrir því. „Loftslagsmál koma okkur öllum við og auðvitað eigum við horfa til þess við stefnumótun. Þar koma orkuskipti í samögnum og rafvæðing bílaflotans sterk inn.“ segir Elliði og bætir svo við: „Mergur málsins er uppbygging strætókerfisins undir nafni Borgarlínu er að mörgu leyti ágætis hugmynd en það þarf samhliða að horfa til heildarhagsmuna og þar með talið okkar sem búum hér utan við þetta kerfi.“