Engar framkvæmdir hafnar en stefna á að opna í lok sumars

Húsnæði Heilsugæslunnar í Þorlákshöfn var lokað 1. mars síðastliðinn vegna fyrirhugaðra framkvæmda á húsnæðinu en eins og glöggir íbúar hafa tekið eftir þá hefur lítið farið fyrir framkvæmdaraðilum á svæðinu.

Íbúar sem Hafnarfréttir tóku á tali eru margir hverjir verulega óánægðir með hve snemma heilsugæslunni var lokað fyrst engar framkvæmdir eru hafnar í húsnæðinu, rúmum mánuði eftir lokun heilsugæslunnar.

Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, segir að verkið hafi reynst stærra en haldið var í fyrstu og því hefur farið fram rýni á frekari aðgerðum. Á meðan hefur staðið yfir vinna við að tæma húsið og undirbúa það fyrir endurnýjunina sem framundan er.

Á hurð heilsugæslunnar kemur fram að húsnæðið sé lokað frá 1. mars og að áætlað sé að viðgerðum ljúki í lok sumars eða fyrir 1. september. Á meðan er íbúum í Þorlákshöfn bent á að sækja sér þjónustu í Hveragerði með tímapöntunum í síma 432-2400.

Samkvæmd Díönu þá eiga framkvæmdir að hefjast á næstunni og á þeim að ljúka innan þess tímaramma sem settur var í upphafi.