Þórsarar gerðu góða ferð austur á Egilsstaði því fyrr í kvöld unnu þeir heimamenn í Hetti 85-100 í Dominos deildinni í körfubolta.
Leikurinn var heilt yfir í nokkuð öruggum höndum Þórsara að undanskildum kafla í þriðja leikhluta, þar sem heimamenn náðu að koma sér aftur inn í leikinn eftir að Þórsarar höfðu leitt með um 20 stigum.
Allir leikmenn Þórsara komust á blað í kvöld. Callum Lawson var stigahæstur með 20 stig og tók 8 fráköst. Næstir voru Halldór Garðar og Larry Thomas með 16 stig hvor en sá síðarnefndi gaf einnig 8 stoðsendingar og tók 6 fráköst. Ragnar Örn skoraði 14, Styrmir Snær 10 stig og 10 fráköst. Emil Karel og Adomas Drungilas skoruðu 7 stig hvor, Davíð Arnar 5, Ingimundur Orri 3 og Benedikt Þorvaldur 2 stig.
Næsti leikur Þórsara er á föstudaginn þegar nafnar þeirra frá Akureyri mæta í Icelandic Glacial höllina.