Thai Sakhon fær frábærar viðtökur

Nýr veitingastaður opnaði í Þorlákshöfn um helgina og ber hann nafnið Thai Sakhon og er til húsa þar sem Meitillinn var áður staðsettur. Rekstraraðilar staðarins eru Dai og Butsaba og sérhæfa þær sig í tælenskri matargerð. Móttökurnar um helgina voru hreint út sagt ótrúlegar að sögn Dai og Butsabu sem voru þreyttar en virkilega ánægðar með þessa fyrstu daga þegar blaðamaður Hafnarfrétta hafði samband við þær.

“Opnunin var alveg frábær, þurftum að loka fyrir pantanir um 17:30 á laugardaginn og síðasta pöntunin fór úr húsi um 22:30. Á sunnudeginum lokuðum við fyrir pantanir um 16:30 og síðasta fór út úr húsi um 21:30.”

Tahi Sakhon mun bjóða upp á hádegismat alla virka daga milli 11:00 og 14:00 og verða fimm réttir í boði. Verð á hádegismat þar sem valdir eru þrír réttir af þessum fimm er 2.450 kr. Til að byrja með verður opnunartíminn 11:00-21:00 alla daga og þegar líður á er stefnan að bæta við pizzum og hugsanlega einhverju fleiru.

Dai og Butsaba áttu eiginlega ekki orð yfir þessum góðu viðtökum. „Við gerðum ráð fyrir að það yrði mikið að gera en við áttum ekki von á svona rosalega góðum viðtökum. Þorlákshafnarbúar eru greinilega mjög hrifnir af tælenskum mat og viljum við koma á framfæri frábærum þökkum til íbúa fyrir þessar góðu móttökur.“

Hafnarfréttir óska Dai og Butsöbu innilega til hamingju með staðinn og gefa honum 5 stjörnur.

Hér getur þú séð matseðilinn hjá Thai Sakhon.