Fljúgandi furðuhluturinn sem sást sveima yfir Þorlákshöfn laust fyrir klukkan tíu í gærkvöldi, reyndist vera geimflaugin Atlas V á vegum bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Sævar Helgi Bragason greindi frá því á Twitter í gærkvöldi.
Sævar Helgi sagði í samtali við RÚV að geimflauginni hafi verið skotið upp frá Vandenberg geimherstöðinni í Kaliforníu með Landsat 9 gervihnött sem fer á braut um jörðu. Það sem sást til héðan frá Íslandi, og víðar á norðurhveli, var geimflaugin að losa sig við eldsneyti og þannig varð úr þetta sjónarspil sem vakti mikla athygli.
Sandra Björk Ragnarsdóttir, íbúi í Þorlákshöfn, og maður hennar náðu myndum af fyrirbærinu og sendu á RÚV. Sandra sagði að ljósið hafa verið sýnilegt í um 5 til 7 mínutur en svo leið það norður á bóginn og hvarf að endingu bakvið ský í áttina að Ingólfsfjalli.
Samkvæmt Facebook síðunni Íbúar í Þorlákshöfn og Ölfusi, þá sáu nokkrir íbúar geimflaugina í gærkvöldi.