Hvergerðingar undrandi á afgreiðslu Ölfusinga

Bæjarráð Hveragerðisbær er undrandi á afdráttarlausri afstöðu bæjarráðs Ölfuss til viðræðna um breytt sveitarfélagsmörk í Hveragerði.

Fyrir bæjarráðsfund Ölfuss þann 18. júlí síðastliðinn lá erindi frá íbúum við Brúarhvammsveg í Ölfusi, þar sem óskað var eftir því að sveitarfélagamörkum sveitarfélagsins Ölfuss yrði breytt þannig að hús þeirra, lóðir og annað sem þeim fylgir tiheyrði framvegis sveitarfélaginu Hveragerði. Beiðnin var tilkomin af þeirri ástæðu að bréfritarar og fjölskyldur þeirra sæki í dag nær- og grunnþjónustu í Hveragerði. Til að mynda væru börn þeirra leik- og grunnskóla í Hveragerði.

Bæjarráð Ölfus hafnaði erindinu og sagði í bókun sinni að sú nærþjónusta í Hveragerði sem nefnd væri í bréfinu væri veitt af sveitarfélögunum í sameiningu. „Ekki einungis tekur sveitarfélagið Ölfus fullan þátt í rekstri þessara eininga heldur á það einnig beina eignaraðild að fasteignum o.fl. Það er því sveitarfélagið Ölfus, í samstarfi við sveitarfélagið Hveragerðisbæ, sem veitir þá góðu þjónustu sem um er rætt í erindinu.“

Bæjarráð Hveragerðisbæjar segir afstöðu bæjarráðs Ölfuss sérkennilega. „Nú hafa allir íbúar búsettir handan Varmár og neðan Sundlaugarinnar Laugaskarðs óskað eftir að fá að tilheyra Hveragerðisbæ.“

„Bæjarráð hefði talið að slík ósk verðskuldaði að lágmarki einhverjar viðræður og því lýsir bæjarráð furðu sinni á þessari afgreiðslu,“ segir að lokum í bókun bæjarráðs Hveragerðisbæjar.