Í dag á alþjóðlega kennaradeginum voru kynntar tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna en verðlaunahátíðin sjálf verður 10. nóvember. Grunnskólinn í Þorlákshöfn á einn af þeim sem tilnefndir eru í flokki framúrskarandi kennara en það er Garðar Geirfinnsson. Hann er tilnefndur fyrir áhugaverða og skapandi náttúrufræðikennslu og á hann tilnefninguna svo sannarlega skilið.
Garðar hefur kennt náttúrufræði í 5.–10. bekk og uppskorið lof fyrir meðal samstarfsfólks og nemenda. Náttúrufræði er ein vinsælasta námsgrein skólans og viðhorf nemenda til náttúrufræði einkar jákvætt. Garðar leggur mikla áherslu á verkleg verkefni sem höfða til nemenda og að þeir fái tækifæri til að kynna þau fyrir öðrum nemendum. Sérstaka athygli hefur vakið verkefni um sólkerfið sem nemendur í 10. bekk hanna í anda nýsköpunar og miðla til yngri nemenda í þeim tilgangi að læra að koma fram og miðla námsefni.
Úr umsögn sem fylgdi tilnefningu:
Garðar nálgast náttúrufræðikennsluna á fjölbreyttan hátt. Nemendur fá að spreyta sig á verklegum verkefnum auk þess sem þeir fá svigrúm til skapandi nálgunar þegar kemur að verkefnaskilum og námsmati. Hann hefur sinnt starfsþróun sinni af metnaði og er óhræddur við að fara ótroðnar slóðir. Hann tekur nýjungum með opnum huga og er alltaf tilbúinn að þróa kennsluna sína með það að leiðarljósi að vekja áhuga á hinum margbreytilegu viðfangsefnum náttúrufræðinnar. Garðar nær vel til nemenda á jákvæðan og uppbyggilegan hátt og tekst að vekja upp forvitni og námsáhuga nemenda.
Aðrir sem tilnefndir voru eru sem hér segir:
Kennarar tilnefndir til Íslensku menntaverðlaunanna 2021
- Garðar Geirfinnsson, kennari við Grunnskólann í Þorlákshöfn, er tilnefndur fyrir áhugaverða og skapandi náttúrufræðikennslu
- Anna Gréta Guðmundsdóttir, kennari við leikskólann Sæborg, er tilnefnd fyrir skapandi og lýðræðislegt leikskólastarf
- Hanna Rún Eiríksdóttir, kennari við Klettaskóla, er tilnefnd fyrir framúrskarandi kennslu nemenda með fötlun, meðal annars fyrir að þróa nýjar leiðir til tjáskipta
- Heiðrún Hámundardóttir, kennari við Brekkubæjarskóla og Tónlistarskólann á Akranesi, er tilnefnd fyrir metnaðarfulla og árangursríka tónmennta- og tónlistarkennslu
- Hilmar Friðjónsson, kennari við Verkmenntaskólann á Akureyri, er tilnefndur fyrir að þróa frjóar og áhugavekjandi leiðir í stærðfræðikennslu
Tilnefningar í flokknum framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur:
- Leikskólinn Aðalþing er tilnefndur fyrir framsækið, skapandi skólastarf og lýðræðislega starfshætti
- Tónlistarskóli Grindavíkur er tilnefndur fyrir framúrskarandi tónlistarkennslu og þróunarstarf
- Frístundamiðstöðin Tjörnin, skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, er tilnefnd fyrir framsækið og fjölbreytt þróunarstarf, frumkvæði og nýbreytni
Þróunarverkefni tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna 2021
- Austur Vestur: Sköpunarsmiðjur: Þróunarverkefni í Ingunnarskóla, Selásskóla og Vesturbæjarskóla sem beinist að því að efla skapandi hugsun, frumkvæði og nýsköpun
- Leiðsagnarnám: Þróunarverkefni um eflingu námsmenningar sem stuðlar að aukinni ábyrgð nemenda á eigin námi
- Vendikennsla í raungreinum: Þróunarverkefni sem byggist á gerð myndbanda fyrir náttúru- og stærðfræðikennslu fyrir nemendur í grunnskólum