Á síðasta fundi bæjarráðs Ölfuss var samþykkt sú breyting að frístundastyrkir í sveitarfélaginu nái til allra barna, óháð aldri. „Þannig að tækifæri til að taka þátt í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi verði jafnað og þar með aukið,“ segir í fundargerðinni.
Frístundastyrkurinn verður hækkaður úr 40 í 45 þúsund krónur á barn á ári en meginmarkmið styrksins er að tryggja að öll börn og unglingar í sveitarfélaginu geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi og að foreldrum þeirra og forráðamönnum verði gert auðveldara að standa straum af þeim kostnaði sem af þátttökunni hlýst.