Herdísarvík, Vörn fyrir voldugu hjartaslagi hafdjúpsins kalda

Sveitarfélagið Ölfus og Háskóli Íslands hafa nú sammælst um að stefna að endurbyggingu Herdísarvíkur, seinasta heimilis þjóðskáldsins Einars Benediktssonar. Þetta staðfestir Elliði Vignisson, bæjarstjóri.

„Við höfum á seinustu árum haft miklar áhyggjur af bæ þjóðskáldsins. Hann stendur fyrir opnu hafi og í brimi og áhlaðanda er hætta á að bærinn geti hreinlega sópast í sjó fram sé ekki gætt að sjóvörn. Í samstarfi við Háskóla Íslands, sem er í dag eigandi að bænum, höfum við leitað til Vegagerðarinnar um að bæta þarna sjóvörn og þau hafa tekið erindinu vel og munu ráðast í framkvæmdir síðar á þessu ári. Þar með ætti bær skáldsins að fá vörn fyrir voldugu hjartaslagi hafdjúpsins kalda, svo vísað sé í orð hans sjálfs“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri.

Herdísarvík er fyrir margar sakir afar áhugaverður staður bæði vegna tengsla hans við Einar Ben. og vegna þeirrar staðreyndar að hann hefur verið friðlýstur síðan 1988. Elliði segir Herdísarvíkina einstaka. „Sveitarfélagið okkar er náttúrulega stórt og ríkt af mögnuðum náttúruperlum og sagan við hvert fótmál. Einar Ben var stórmenni á svo margan mælikvarða og það hryggir mann að sjá hans seinasta heimili grotna niður fáum til ánægju. Við eigum sannarlega hauk í horni í þessu verkefni þar sem Háskóli Íslands hefur lýst vilja sínum til að ráðast í þessa uppbyggingu og færa hús þjóðskáldsins til fyrri vegs og virðingar.

Aðspurður segir Elliði að framkvæmdir gætu hafist á vormánuðum en það sé þó frekar Háskólans, eiganda hússins að svara því nánar. „Húsið var á sínum tíma reist á 6 vikum en það var flutt sjóleiðina í tilsniðnum einingum. Einar Ben. og Hlín Johnson sambýliskona hans fluttu inn í nýbyggt húsið 8. september 1932 og verða því komin 90 ár frá því að húsið var tekið í notkun núna í haust. Óneitanlega væri gaman að geta minnst þeirra tímamóta með því að sýna endurgert heimili skáldsins.“

Þess má að lokum geta að Bubbi Morthens orti sérstaklega um tíma Einars Ben. í Herdísarvík og söng svo listilega í laginu Seinasti örnin (https://youtu.be/TdDaD31cjSw)