Sókn á forsendum sterks atvinnulífs

Íbúum fjölgar stöðugt, ný fyrirtæki líta dagsins ljós, eldri fyrirtæki dafna. Íbúðarhús rísa um allt sveitarfélagið, ásókn í lóðir er mikil. Reksturinn gengur vel og íbúar mælast þeir ánægðustu á landinu öllu.  Það er ekki tilviljun að það gengur vel hjá okkur. Grunnurinn að sókninni er í atvinnulífinu.

Eflum atvinnulífið í Ölfusi

Ölfus er ríkt af auðlindum og tækifæri til atvinnusköpunar eru mörg og fjölbreytt. Mikil áhersla hefur verið lögð á að efla atvinnulífið í sveitarfélaginu á síðustu árum og nú er stefnt að því að gera enn betur. Nútíma samfélag krefst fjölbreytts atvinnulífs og getur jákvæð aðkoma sveitarfélagsins skipt sköpum um framvindu mála. D listinn mun áfram berjast fyrir uppbyggingu atvinnulífsins í sveitarfélaginu með því að efla innviði og skapa aðlaðandi umhverfi fyrir fyrirtæki m.a. með því að tryggja framboð að góðum lóðum til atvinnureksturs.

Efling hafnarinnar

Traustir innviðir eru forsenda áframhaldandi uppbyggingar atvinnulífs. Stór skref voru stigin í þeim efnum á kjörtímabilinu sem senn líður á enda. Dráttarbáturinn Herdís var keyptur snemma á kjörtímabilinu sem hefur aukið viðbragðsgetu hafnarinnar og öryggi sjófarenda til muna. Þá náðust samningar við ríkið um stóreflingu hafnarinnar með um 5 milljarða fjárfestingu. Framkvæmdir eru þegar hafnar og að þeim loknum getur höfnin tekið á móti allt að 200 metra löngum skipum, þar með talið skemmtiferðaskipum. Enn betur má ef duga skal. Fyrirséð er að umsvif hafnarinnar munu aukast í veldisvexti á komandi árum. Það er því mikilvægt að hefja undirbúning á áframhaldandi stækkun hafnarinnar til Norðurs. Þá er stefna D listans að taka upp markvisst samtal við rekstraraðila farþegaferja um möguleika þess að sigla á milli Þorlákshafnar og meginlands Evrópu. Með því opnast ný gátt fyrir erlenda ferðamenn beint inn á Suðurlandið og nýr valmöguleiki fyrir ferðaþyrsta Íslendinga.

Efling ferðaþjónustunnar

Ferðaþjónustan gegnir veigamiklu hlutverki í atvinnulífi Ölfuss. Í sveitarfélaginu eru fjölmörg ferðaþjónustufyrirtæki starfandi; hestaleigur, gististaðir, veitingastaðir og auðvitað afþreyingarfyrirtæki. Mikilvægt er að standa þétt við bakið á þeim og skapa frjósaman jarðveg fyrir þau svo þau geti áfram blómstrað. D listinn mun berjast fyrir því að efla Ölfus sem ferðaþjónustusvæði og spennandi áfangastað. Áfram þarf að sinna okkar mögnuðu reiðleiðum, bæta gönguleiðir og huga að þeim náttúruperlum sem víða er að finna, með áherslu á aðgengi og upplýsngar.  Þá viljum við auka á samtal og samvinnu meðal fyrirtækja á svæðinu í gegnum Ölfus Cluster og veita þeim stuðning til frekari uppbyggingar. Taka upp samtal við rekstraraðila skemmtiferðaskipa um möguleika þess að fjölga viðkomum hér í Þorlákshöfn með tilheyrandi innspýtingu á svæðið. Halda áfram að vinna með forsvarsmönnum Íslenskra Fasteigna að hugmyndum þeirra að koma upp hóteli og baðlóni við Skötubót.

Efling Ölfus Cluster

Aldrei í sögunni hafa verið fleiri atvinnutækifæri í sveitarfélaginu. Nægir þar að líta til þeirra fjölmörgu laxeldisverkefna sem eru í farvatninu, gróðurhúsauppbyggingar, framleiðslu skógarplantna, umhverfisvænnar framleiðslu á íblöndunarefni í sement og margt, margt fleira. Til að auka á samvinnu og samtals milli sveitarfélagsins og atvinnulífsins beitti D listinn sér fyrir því að koma á fót sérstöku stuðningsneti fyrir atvinnulífið, þekkingarsetrið Ölfus Cluster. Setrið hefur það hlutverk að efla og styðja við atvinnulífið á svæðinu með hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins að leiðarljósi. Ölfus Cluster aðstoðar bæði fyrirtæki og einstaklinga við að koma hugmyndum sínum í farveg og hefur staðið fyrir mörgum áhugaverðum örþingum sem hafa verið vel sótt. Samhliða stofnun Ölfus cluster var sett á laggirnar fjarvinnuver sem nýtist þeim fjölmörgu aðilum sem stunda fjarvinnu. Nauðsynlegt er að halda áfram að styðja við og styrkja Ölfus Cluster sem samvinnuvettvang fyrirtækja og vettvang nýsköpunar.

Orkuöflun

Ljóst er að uppbygging atvinnulífs kallar á umtalsverða viðbótarorku. Mikil vöntun er á afhendingu á heitu vatni og rafmagni sem mikilvægt er að fá úrlausn á. Mikil áhersla verður lögð á að ganga til samninga við Orkuveitu Reykjavíkur um að hluti þess heita vatns sem er að finna á Hellisheiði verði veitt til Þorlákshafnar og nýtt þar til eflingar atvinnulífsins. Þá verður lagt mikið upp úr því að Landsvirkjun endurskoði orkuspá sína fyrir sveitarfélagið með tilliti til þeirra verkefna sem þegar eru á teikniborðinu. Það er einfaldlega ekki í boði að eitt orkuríkasta sveitarfélag á landinu standi frammi fyrir því að afhending á heitu vatni og rafmagni standi áframhaldandi uppbygginu fyrir þrifum.

Gerum gott betra í atvinnumálum

Fjölbreytt atvinnulíf er undirstaða hvers samfélags. Höldum áfram á þeirri vegferð sem hafin er. Setjum X við D þann 14.maí og tryggjum áframhaldandi atvinnuuppbyggingu í Sveitarfélaginu Ölfusi.

Grétar Ingi Erlendsson

3. sæti D listans í Ölfusi